
Magnús Már Einarsson, þjálfari karlaliðs Aftureldingar, mætti til Helga Fannars Sigurðssonar í nýjasta þætti af Íþróttavikunni hér á 433.is.
Magnús skrifaði undir nýjan samning við Aftureldingu eftir tímabil, þar sem liðið féll úr Bestu deildinni sem nýliði. Hann hefur gert frábæra hluti undanfarin ár, kom liðinu upp í fyrsta sinn og var áhugi á honum annars staðar frá.
„Í fyrsta skiptið síðan 2021 varð ég samningslaus að hausti. Ég vildi bíða og sjá í hvaða deild við yrðum áður en ég skrifaði undir nýjan samning. Ég var sannfærður um það til klukkan fjögur 25. október að við myndum halda okkur uppi. Ég hafði alltaf trú á því og ætlaði að stýra liðinu áfram í Bestu deildinni.
Það tókst ekki og þá tók maður smá tíma í að melta þetta. Ég fékk símtöl annars staðar frá, sem var bara gaman. Ég tók mér nokkra daga í að hugsa málið, fór erlendis og komst að því að besta niðurstaðan væri að vera áfram. Við erum með það góðan grunn í Mosfellsbænum upp á að gera enn betri hluti. Mig langaði að taka stærri skref hér, mér þykir ótrúlega vænt um fólkið hér og finn eldmóð fyrir að gera betur,“ sagði Magnús, en kom til greina að fara annað?
„Ég fór á einhverja fundi og það var bara gaman. Ég er þakklátur fyrir að það hafi verið heyrt í mér og það eru flottir hlutir í gangi annars staðar,“ sagði hann enn fremur.
Nánar í spilaranum.