

Rúben Amorim grínaðist með að Manchester United væri að stela hugmyndum frá öðrum liðum í ensku úrvalsdeildinni til að bæta föst leikatriði sín, eftir að liðið sneri leiknum við og vann Crystal Palace á útivelli.
Palace hafði ekki tapað heimaleik síðan í febrúar, en United sneri tapi í 2-1 sigur á Selhurst Park. Joshua Zirkzee og Mason Mount skoruðu með níu mínútna millibili, bæði mörk komu eftir aukaspyrnu frá Bruno Fernandes.
Amorim hefur gert föst leikatriði að lykilatriði og lætur aðstoðarmann sinn Carlos Fernandes standa í tæknisvæðinu við öll slík atvik. United hefur einnig skorað úr hornum í leikjum gegn Tottenham og Nottingham Forest í nóvember.
Aðspurður um föst leikatriði United sagði Amorim. „Við vinnum mjög mikið í þessu. Við höfum meiri tíma til að æfa og maður lærir heilmikið í Englandi. Þegar þú kemur í úrvalsdeildina lærirðu af öðrum liðum hvernig á að gera þetta,“ sagði Amorim.
„Og já við erum að stela ýmsu til að skora.“
Sigurinn var sá fyrsti hjá United eftir að hafa lent undir síðan 4-1 sigurinn gegn Athletic Bilbao í maí.