
Cristiano Ronaldo hefur opinberað að hann hafi á sínum tíma verið nálægt því að ganga til liðs við Arsenal áður en hann endaði hjá Manchester United.
Í nýju viðtali við Piers Morgan sagði Portúgalinn að samningaviðræður hefðu átt sér milli hans og Arsenal.
„Þetta er sönn saga. Ég var nálægt því að ganga til liðs við Arsenal fyrir mörgum árum, en það er liðinn tíð,“ sagði Ronaldo.
Þrátt fyrir að hafa varið stórum hluta ferils síns hjá erkifjendum Arsenal í Manchester United, viðurkennir Ronaldo að hann hafi alltaf haft dálæti á Lundúnaliðinu.
„Í hreinskilni sagt, þegar ég horfi á Arsenal, þá sé ég þá ekki sem keppinauta, mér líkar við liðið!“
Ronaldo, sem nú leikur með Al-Nassr í Sádi-Arabíu, hefur áður talað um virðingu sína fyrir Arsene Wenger og Arsenal, sem reyndi að fá hann áður en hann gekk til liðs við United árið 2003.