Cole Palmer leikmaður Chelsea spilar ekki næstu vikurnar og vonar félagið að það hjálpi honum að ná bata.
Palmer hefur fundið fyrir eymslum síðustu vikur og nú hefur verið ákveðið að setja hann til hliðar.
„Við höfum ákveðið að passa upp á Cole, að þetta versni ekki,“ segir Enzo Maresca stjóri Chelsea.
„Hann fær tvær til þrjár vikur til að jafna sig, hann getur vonandi komið inn eftir næsta landsleikjafrí ef hann nær sér 100 prósent.“
„Hann þarf líklega ekki aðgerð en eymslin í nára hafa bara versnað. Við ákváðum þetta eftir spjall við hann.“
Ljóst er að þetta er áfall fyrir Chelsea en Palmer hefur undanfarin ár verið besti leikmaður liðsins.