Jóhann Skúli Jónsson, hlaðvarpsstjarna með meiru, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar í Íþróttavikunni á 433.is á föstudag. Þar var farið vel yfir lokasprettinn í Bestu deild karla.
Jóhann er mikill stuðningsmaður Vals, sem er búið að tapa toppsætinu nú fyrir tvískiptingu. Lykilmennirnir Patrick Pedersen og Frederik Shcram eru frá út tímabilið og annar lykilmaður, Tómas Bent, var seldur á miðju tímabili til Skotlands.
„Þú ert búinn að missa besta markvörðinn, besta djúpa miðjumanninn og langbesta framherjann í deildinni. Ég held að það séu ekki mörg lið sem myndu ráða við þetta,“ sagði Jóhann í þættinum.
„En það stingur að þetta gerist þegar glugginn er opinn og að það sé ekki brugðist við. Fyrir einum og hálfum mánuði síðan var ég að horfa fram á það að vinna tvöfalt. Nú eru áhyggjur komnar á að halda Evrópusæti,“ sagði Jóhann enn fremur, en Valur fór í bikarúrslit og tapaði gegn Vestra þar.
Þátturinn í heild er í spilaranum.