Mikael Nikulásson fyrrum þjálfari KFA og sérfræðingur Þungavigtarinnar var ekki sáttur með þá ákvörðun að slökkva á stórleik Arsenal og Liverpool í Víkinni í gær.
Mikael var einn af þeim sem fékk miða á stórleikinn þegar Breiðablik varð Íslandsmeistari í hreinum úrslitaleik gegn Víkingi.
Auglýst var að stórleikurinn yrði sýndur á skjá í Víkinni og það var svo en ekki allur leikurinn. „Það voru ágætis aðstæður í Víkinni, maður þarf að setja smá standard. Ekki auglýsa andlitsmálningu fyrir leik og svo er hún ekki,“ sagði Mikael í nýjasta þætti Þungavigtarinnar.
Mikael fer svo yfir það sem gerðist. „Ekki auglýsa Arsenal vs Liverpool í stóra salnum og slökkva svo á leiknum þegar það eru tuttugu mínútur eftir og segja öllum að fara út. Ég er fimmtugur og stjórna því hvenær ég fer út, ég var með miða í stúkuna.“
Mikael segir að nokkrir hafi orðið ansi reiðir yfir þessu sem ætluðu að klára stórleikinn á Englandi áður en farið væri út á völl.
„Þeir slökktu bara á leiknum, það voru nokkrir trylltir. Þeir slökktu bara á leiknum, ég missti af síðustu tuttugu mínútum. Það var einhver Víkingur sem tók völdin og sögðu öllum að fara út, þetta er eins og á leikskóla.“