Ljóst er að aðeins lítið brot af þeim stuðningsmönnum Breiðabliks sem myndu vilja sjá úrslitaleikinn gegn Víkingi á sunnudag kemst á völlinn. Blikar fá aðeins 250 miða á leikinn.
Breiðablik er stærsta knattspyrnudeild landsins og því ljóst að framboðið annar ekki eftirspurn, líklega hefðu Blikar leikandi getað selt 3-4 þúsund miða til eigin stuðningsmanna.
Leikurinn fer fram á heimavelli Víkings og stefnir félagið á að koma 2500 áhorfendum fyrir, Blikar fá 10 prósent af þeim miðum þar sem úrslitin ráðast.
Stuðningsmenn Breiðabliks eru reiðir og ræða um málið á samfélagsmiðlum félagsins. „Til skammar fyrir Knattspyrnuhreyfinguna, keppendur og áhorfendur að þessi lokaleikur muni ekki fara fram í Laugardalnum eftir spennandi lokakeppni í þessari íþróttagrein. Hefði mátt kveðja gamla völlinn og setja upp góðan lokaleik og gott event. Leikurinn á alltof litlum velli. Trúi ekki að blikar fái aðeins 10% miða, skrýtið. En áfram blix, mínir menn,“ skrifar Hlín Bjarnadóttir um málið.
Breiðablik segir að þessum 250 miðum verði úthlutað samkvæmt reglum, en hvaða reglum er enn óljóst. Sindri Þór Sigurðsson ætlar ekki að deyja ráðalaus. „Hvet fólk sem fær ekki miða eindregið að fjölmenna fyrir utan víkingsvöll, stemning úr sal í smáranum skilar sér ekki á völlinn,“ skrifar Sindri.
Ásgeir Haukur Guðmundsson telur hræðslu vera í Víkingum. „Djöfull eru þeir litlir og hræddir í voginum. BLIKAR KOMA,“ skrifar Ásgeir.
Freyr Snorrason sem hefur verið í framboði fyrir Samfylkinguna skorar á stjórn Blika að láta hinn almenna stuðningsmann ganga fyrir. „Skora á stjórn Blika að gefa þessa miða til gallharðra blika sem eru til í að vera með læti á pöllunum en ekki til jakkafataklæddra stuðningsmanna. Við þurfum alvöru stuðning til að geta verið á móti 2000 Víkingum. Fjölskyldur leikmanna og bakhjarlar eru ekki mikilvægari en hinn gallharði stuðningsmaður sem getur verið með alvöru stuðning sem skilar sér à völlinn,“ skrifar Freyr