Fyrsta leik kvöldsins í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars karla er lokið en þar tók Lengjudeildarlið Keflavíkur á móti Bestu deildarliði ÍA.
Hinrik Harðarson kom Skagamönnum yfir snemma leiks en allt snerist við þegar um tíu mínútur lifðu fyrri hálfleiks er Erik Tobias Sandberg, leikmaður ÍA, fékk að líta rauða spjaldið og fékk á sig víti.
Sami Kamel fór á punktinn og skoraði. Það liðu svo ekki margar mínútur þar til Kamel skoraði aftur og staðan í hálfleik 2-1.
Ekkert var skorað í seinni hálfleik þar til á 86. mínútu en þá innsiglaði Valur Þór Hákonarson 3-1 sigur Keflvíkinga.
Þess má geta að undir lok leiks fékk Frans Elvarsson í liði Keflavíkur rautt spjald.
Keflavíkingar komnir í 8-liða úrslit en þetta var annað Bestu deildarliðið sem þeir slá út. Liðið vann Blika í síðustu umferð keppninnar.