Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ, átti í vikunni fund með Aleksander Ceferin, forseta UEFA, í Bangkok, Taílandi, þar sem ársþing FIFA fer fram.
Ræddu þeir ýmis mál, þar á meðal málefni þjóðarleikvangs á Íslandi, erfiða stöðu og framtíð Laugardalsvallar, og möguleikana á stuðningi UEFA við nýjan eða endurbættan leikvang fyrir landslið Íslands.
Því tengt var rætt mikilvægi þess að vegna góðs árangurs íslenskra félagsliða í UEFA-keppnum þurfi þau að hafa öruggan aðgang að leikvangi sem uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru í riðlakeppni Evrópumóta félagsliða.
Ceferin var áhugasamur um ýmislegt tengt íslenskri knattspyrnu, meðal annars um skipulag yngri flokka, hátt menntunarstig þjálfara og þá góðu hluti sem félög eru að gera í þjálfun barna og unglinga, sem skilar sér m.a. í eftirtektarverðum árangri yngri landsliða Íslands.