Dómarinn James Bell hefur opnað sig um það hvað átti sér stað í leik Chelsea og Burnley sem fór fram í síðasta mánuði.
Vincent Kompany, stjóri Burnley, var dæmdur í tveggja leikja bann fyrir hegðun sína í leiknum en hann skaut hressilega á Darren England í viðureigninni.
Bell var fjórði dómari leiksins og heyrði allt sem átti sér stað en Kompany var hundfúll með vítaspyrnudóm sem Chelsea fékk í viðureigninni.
,,Helvítis svindlari,“ kallaði Kompany í átt að England þónokkrum sinnum í leiknum að sögn Bell sem ræddi við Daily Mail.
Bell lét England vita af því sem átti sér stað og gaf hann Belganum rautt spjald í kjölfarið en það hjálpaði ekki til.
Kompany róaðist ekki við þessa ákvörðun og var ekki lengi að kalla England svindlara í enn eitt skiptið sem kostaði tveggja leikja bann.