Fyrrum knattspyrnumaðurinn Peter Crouch sagði frá því í hlaðvarpi sínu á dögunum þegar honum var strítt í búningsklefa Tottenham fyrir slakan árangur sinn er kom að kvenfólki.
Crouch átti flottan feril með liðum eins og Tottenham, Aston Villa og Liverpool, sem og enska landsliðinu, en allt hófst þetta hjá fyrstnefnda liðinu. Þar var hann sem ungur maður en sagði frá miður skemmtilegri upplifun frá þeim tíma.
„Ég var að ná í skóna mína inn í búningsklefa og þeir spurðu mig „Crouchy, hvernig er ástarlífið þitt?“ Ég stóð þarna fyrir framan 20 leikmenn úr aðalliðinu og sagði þeim að það væri ekkert. „Ertu hreinn sveinn?“ spurðu þeir og ég sagði þeim að svo væri,“ sagði Crouch.
„Ég stóð þarna og þeir hlógu að því hvernig mér hafði gengið með hinu kyninu. Það var ekkert verra. Þetta var hrein skelfing. Þeir spurðu mig hvernig ég myndi kyssa stelpu og ég þyrfti að æfa mig á einhverju.“
Crouch vonast til að umhverfið sé öðruvísi í dag.
„Ég vona að þetta sé ekki lengur svona í dag. Þetta er ekki gott umhverfi fyrir ungan strák.“