Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Wroclaw
Ísland mætir í kvöld Úkraínu í úrslitaleik um sæti á EM í sumar. Að því tilefni ræddi úkraínski miðillinn Sport.ua við Igor Nakonechny, fyrrum knattspyrnumann sem spilaði með ÍBV á Íslandi tímabilið 1993.
„Jafnvel þegar ég var þar voru íslenskir leikmenn þekktir fyrir líkamlegan styrk sinn. Lítill Íslendingur er líka sterkur,“ segir Nakonechny um íslenska leikmenn á þessum tíma.
„En leikmenn íslenska landsliðsins í dag eru mun betri en þeir sem ég spilaði með þarna. Þeir spila um allan heim, farið á tvö stórmót og sannað hvað þeir geta. Þetta verður því alls ekki auðveldur leikur fyrir Úkraínu. Ég held að þetta verði erfitt en vonandi komumst við í gegnum þetta og förum á EM.“
Nakonechny leið vel á Íslandi.
„Ég man eftir mörgu. Eldfjöllum, fiskum, fuglum og kindum. Þetta var allt nýtt. Svo eru heitar náttúrulaugar sem var yndislegt að synda í. Höfuðborgin, Reykjavík, er líka frábær.“