Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Búdapest
„Stemningin er mjög góð og jákvæð. Hún var það fyrir síðasta leik og enn betri núna eftir að hafa unnið,“ sagði Guðlaugur Victor Pálsson landsliðsmaður við 433.is í dag.
Þrír dagar eru í úrslitaleik um sæti á EM gegn Úkraínu en íslenska liðið tryggði sér þann leik með 4-1 sigri á Ísrael á fimmtudag.
Athygli vakti að Guðlaugur tók ekki þátt í æfingu Íslands í dag en hann segir það ekki vegna meiðsla.
„Ég vildi bara gefa líkamanum aukadag í rólegheitum. Það er ekkert að mér þannig, ég er ekkert meiddur. Það eru bara nokkrir hlutir sem eru búnir að angra mig í smá tíma. Það er búið að vera mikið álag þannig ég ákvað að gera þetta.“
Guðlaugur býst við töluvert erfiðari leik gegn Úkraínu en Ísrael.
„Þetta verður miklu erfiðara en á móti Ísrael, frábærir einstaklingar og gott lið. Þetta verður alls ekki auðvelt.“
Hann er ánægður með stöðuna á íslenska hópnum og blöndunni sem nú er til staðar.
„Það er komin frábær blanda. Þetta eru skemmtilegir strákar á öllum aldri, allir mismunandi. Þetta er bara frábært.“
Ítarlegra viðtal við Guðlaug má nálgast í spilaranum.