Rakavandamál eru í einum af búningsklefum Laugardalsvallar og óvíst er hversu lengi verður hægt að leika alþjóðlega keppnisleiki á vellinum.
Þetta kemur fram í fundargerð KSÍ frá 24 ágúst sem nú hefur verið gerð opinber á vef sambandsins.
Knattspyrnuhreyfingin hefur lengi beðið eftir nýjum keppnisvelli en ríkisstjórn og Reykjavíkurborg hafa ekki viljað fara í verkefnið.
Laugardalsvöllur er á undanþágu og virðist styttast í þann dag að UEFA hreinlega banni keppnisleiki á vellinum í sínum keppnum.
„Rætt um ástand Laugardalsvallar og viðhaldsverkefni, m.a. að loka hefur þurft klefa 6 tímabundið vegna rakavandamála. Ástandið er grafalvarlegt og óvíst er hversu lengi verður hægt að leika á vellinum í opinberum keppnisleikjum,“ segir í fundargerð KSÍ
„Framundan er fundur með UEFA þar sem farið verður yfir stöðuna. Þá er einnig framundan fundur með Reykjavíkurborg um helstu viðhaldsverkefni sem þola ekki bið. Fulltrúar KSÍ á þeim fundi verða Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri, Kristinn V. Jóhannsson vallarstjóri Laugardalsvallar og Óskar Örn Guðbrandsson verkefnastjóri KSÍ í landsleikjum á Laugardalsvelli. “