Paul Heckingbottom, stjóri Sheffield United, var bálreiður í gær eftir leik liðsins við Tottenham.
Sheffield var lengi með 1-0 forystu á útivelli gegn Spurs en fékk á sig tvö mörk í uppbótartíma og tapaði að lokum 2-1.
Dómarar leiksins bættu fjölmörgum mínútum við venjulegan leiktíma þar sem þeir töldu Sheffield vera að tefja tímann eins mikið og liðið gat.
Það er eitthvað sem Heckingbottom sættir sig ekki við en þessi regla er í raun ný á Englandi eða í dag er tekið strangar á tímasóun en áður.
,,Það þarf eitthvað að breytast strax. Ég er ekki að væla, ég nefndi þetta þegar við vorum 1-0 yfir í hálfleik líka,“ sagði Heckingbottom.
,,Þeir einbeita sér að tímaeyðslunni svo dómararnir eru að stjórna því hvernig við spilum okkar leik. Tottenham pressar á okkur og það stjórnar því einnig hvernig við spilum.“
,,Þetta má ekki gerast en þetta er staðreyndin, dómararnir vilja ráða því hvernig við spilum okkar fótbolta. Þeir eru helteknir af þessari tímasóun og gulum spjöldum.“
,,Dómgæslan var ömurleg og tengist fótboltanum ekki neitt, þetta snýst bara um að stjórna hvernig leikurinn fer fram.“