Knattspyrnukonan Maddy Cusack er látin aðeins 27 ára gömul. Hún var á mála hjá Sheffield United í ensku B-deildinni og félagið minnist hennar nú.
Cusack var á leið inn í sitt sjötta tímabil með Sheffield en hún varð fyrsti leikmaðurinn til að spila 100 leiki fyrir liðið.
„Þetta eru afar sorgleg tíðindi fyrir alla hér á Bramall Lane. Maddy náði þeim einstaka áfanga að spila fyrir fjölda liða Sheffield United og var hún vinsæl á meðal allra sem höfðu hitt hana,“ segir Stephen Bettis, stjórnarformaður Sheffield United.
Félagið sendi einnig frá sér yfirlýsingu.
„Við munum taka ákvörðun um hvernig er viðeigandi að heiðra Maddy og fagna lífi hennar. Félagið og fjölskylda Maddy myndu kunna að meta að fá frið á þessum erfiðu tímum og munum við ekki tjá okkur frekar í bili.“