Ben Foster heimsótti æfingabúðir Manchester United í Bandaríkjunum og rétti fram sáttarhönd eftir æfingaleik í vikunni.
Foster er í dag á mála hjá Wrexham. Liðin mættust í æfingaleik aðfaranótt miðvikudags.
Í leiknum braut Nathan Bishop, markvörður United, svo illa á Paul Mullin, stjörnu Wrexham, að hann þurfti súrefni og að fara á sjúkrahús.
Mullin greindi þó frá því á samfélagsmiðlum eftir leik að hann væri í góðu standi.
Bishop fékk á baukinn fyrir atvikið og var baulað hressilega á hann á vellinum.
Þjálfari Wrexham, Phil Parkinson, var brjálaður út í Bishop eftir leik.
„Ég er brjálaður ef ég á að vera hreinskilinn. Þetta var klaufalegt og kærulaust brot í leik á undirbúingstímabili og ég er alls ekki sáttur við þetta. Ég hef ekki séð markvörðinn enn þá og ég held að það sé best fyrir hann að halda sig fjarri okkur því við erum ekki ánægðir með hann.“
Hjá United voru menn allt annað en sáttir með ummæli Parkinson.
Foster er hins vegar sagður hafa rétt fram hjálparhönd með því að fara og hitta Bishop. Öllu ósætti sé því lokið.