Æðstu menn hjá Manchester United eru sagðir hafa átt fyrsta fundinn með Mason Greenwood eftir að málin gegn honum voru látin niður falla. Verið er að fara ítarlega yfir stöðuna áður en ákvörðun verður tekin.
Greenwood hefur ekki spilað fótbolta í meira en ár í kjölfar þess að hann var ákærður fyrir tilraun til nauðgunar, stjórnandi hegðun og líkamsárás, allt gegn fyrrverandi kærustu sinni Harriet Robson.
Málin voru hins vegar látin niður falla nýlega þegar lykilvitni dró sig úr þeim.
Greenwood er þó í banni hjá United sem fer nú ítarlega yfir alla anga málsins áður en ákvörðun með framtíð hans verður tekin. Félagið þarf á meðan að greiða honum 75 þúsund pund í vikulaun.
Talið er að fundurinn á milli United og Greenwood hafi átt sér stað fyrir leik liðsins gegn Barcelona síðastliðinn fimmtudag. Það er enska götublaðið The Sun sem segir frá þessu.
Heimildamaður blaðsins segir að félagið sé að reyna að ná utan um stöðuna og telur sanngjarnt að rödd Greenwood fái að heyrast. Það er hluti af þeirri rannsókn sem United heldur nú innan félagsins. Einnig er verið að reyna að komast að því hvert andlegt og líkamlegt ástand Greenwood sé.
Rannsóknin er ítarleg og er ekki búist við að henni ljúki á næstunni. Það er talið ansi ólíklegt að Greenwood leiki fyrir United á þessari leiktíð en Erik ten Hag, stjóri liðsins, hefur þó rætt við hann í síma.
Aðilar innan United hafa sett sig á móti því að Greenwood fái að snúa aftur. Þar á meðal eru leikmenn kvennaliðsins.
Greint var frá því á dögunum að Greenwood eigi von á sínu fyrsta barni ásamt unnustu sinni.