Real Madrid verður án þeirra Toni Kroos og Aurelien Tchouameni í stórleiknum gegn Liverpool í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á þriðjudag.
Miðjumennirnir hafa báðir verið að glíma við veikindi og verða ekki með.
Stuðningsmenn Real Madrid fá hins vegar jákvæðar fréttir í bland við þær neikvæðu því Karim Benzema verður með eftir að hafa glímt við meiðsli.
Það er óvíst hvernig Carlo Ancelotti mun stilla miðsvæði sínu upp gegn Liverpool í ljósi fregna. Þeir Luka Modric, Eduardo Camavinga og Dani Ceballos mynduðu miðjuna gegn Osasuna um helgina.
Það er talið að Federico Valverde gæti verið færður aftar á völlinn og á miðjuna gegn Liverpool.
Fyrri leikur Liverpool og Real Madrid fer fram á Anfield og hefst klukkan 20 annað kvöld.