Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, kom í Íþróttavikuna með Benna Bó sem sýnd er á Hringbraut á föstudagskvöldum. Gestur með honum var sjálfur Hjörvar Hafliðason, Dr. Football.
Þeir fóru um víðan völl en rifjuðu meðal annars upp knattspyrnuafrek Bjarna sem þótti afar góður og efnilegur miðvörður með Stjörnunni og var búinn að spila um 100 leiki þegar hann var rétt rúmlega tvítugur. Hann lagði skóna á hilluna eftir að hafa meiðst gegn KR árið 1994.
„Ég var ekkert líklegur til að gera mjög stóra hluti en eftir á að hyggja þá er ég í mínu besta standi þegar ég meiðist 1994. Ég dalaði aðeins en var kominn á mjög flott skrið.
Það munaði talsvert um það að ég var að vinna talsvert með að laga skallatæknina hjá mér. Maður verður allt annar leikmaður þegar maður stjórnar því hvert maður skallar. Sérstaklega inn í teig andstæðingana og ég var farinn að skora talsvert mikið af mörkum sumarið 93. Þá voru við að komast aftur upp í efstu deild.
Eins og á við víða í íþróttum þá eru menn að toppa 28 ára og ég átti trúlega mín bestu ár eftir.“