Damien Duff, fyrrum leikmaður Chelsea, er alls ekki sannfærður um enska landsliðið sem er komið í 16-liða úrslit HM.
Þar munu þeir ensku spila við Senegal en England vann lið Wales nokkuð sannfærandi 3-0 í gær eftir góðan seinni hálfleik.
Þrátt fyrir sigurinn góða er Duff ekki beint hrifinn af þeim ensku og telur að möguleikar þeirra á mótinu séu litlir.
Staðan var markalaus eftir fyrri hálfleikinn en England svaraði fyrir sig í þeim seinni og vann að lokum góðan sigur.
Það eru 56 ár síðan England vann síðast HM og þarf spilamennskan að batna ef liðið á að eiga möguleika á sigri.
,,Þeir nýttu færin sín og það var þar sem þeir sýndu eigin gæði,“ sagði Duff í samtali við RTE.
,,Er ég sannfærður um enska liðið? Langt frá því. Þetta var gott kvöld og þeir fá góðan drátt í næstu umferð gegn Senegal.“