Cody Gakpo heldur áfram að draga vagninn fyrir hollenska landsliðið á Heimsmeistaramótinu í Katar en það dugði ekki til gegn Ekvador í dag.
Gakpo kom Hollandi yfir snemma leiks en hann opnaði einnig markareikning liðsins gegn Senegal í fyrstu umferð.
Gakpo hefur verið sjóðandi heitur með PSV í Hollandi og heldur því áfram með hollenska liðinu.
Enner Valencia sem skoraði bæði mörk Ekvador í fyrsta leik gegn Katar jafnaði svo leikinn og þar við sat. Enner skoraði öll þrjú mörk Ekvador á HM til þessa.
Valencia var seint í leiknum borinn af velli sem er áhyggjuefni fyrir Ekvador.
Bæði lið eru með fjögur stig fyrir lokaumferðina þar sem Holland mætir stigalausum heimamönnum á meðan Ekvador mætir Senegal sem vann Katar fyrr í dag.