Tottenham ætlar sér að semja aftur við Dejan Kulusevski. Þetta segir stjóri liðsins, Antonio Conte.
Kulusevski kom til Tottenham frá Juventus á láni í janúar á þessu ári. Skrifaði hann undir 18 mánaða lánssamning. Tottenham hefur þá möguleika á að kaupa leikmanninn á tæplega 30 milljónir punda að honum loknum.
Það er þó ekki líklegt að Svíinn snúi aftur til ítalska félagsins þegar lánssamningurinn rennur út.
„Hann er hungraður í meira og vill verða toppleikmaður. Þetta væru mjög góð kaup hjá Tottenham,“ segir Conte.
Kulusevski er aðeins 22 ára gamall. Hann hefur skorað sex mörk og lagt upp ellefu í 29 leikjum fyrir Tottenham.
Mikil ánægja er með kantmanninn í Norður-Lundúnum og eru allar líkur á að hann verði áfram.