Tveir leikir fóru fram í Lengjudeild karla í kvöld.
Grindavík tók á móti Þrótti Vogum og vann nokkuð öruggan sigur í tilþrifalitlum leik.
Dagur Ingi Hammer Gunnarsson kom heimamönnum yfir undir lok fyrri hálfleiks. Kairo Edwards-John tvöfaldaði forystu þeirra á 64. mínútu.
Dagur Ingi innsiglaði svo 3-0 sigur Grindvíkinga með marki undir lok leiks.
Grindavík er með fjögur stig eftir fyrstu tvo leiki tímabilsins. Þróttarar eru án stiga eftir tvö 3-0 töp í upphafi leiktíðar.
Þá heimsótti HK lið KV í Vesturbæ.
Gestirnir byrjuðu mun betur og komust í 0-2 eftir rúmar tíu mínútur með mörkum frá Ásgeiri Marteinssyni og Hassan Jalloh.
KV tók aðeins við sér þegar leið á fyrri hálfleikinn en HK leiddi þó með tveimur mörkum í hálfleik.
Ekki mikið markvert gerðist í seinni hálfleik en Patryk Hryniewicki minnkaði muninn fyrir heimamenn á lokamínútum leiksins. Bjarni Páll Linnet Runólfsson átti þó eftir að skora þriðja mark HK og innsigla 1-3 sigur.
HK náði þar með í sín fyrstu stig á tímabilinu en KV er enn án stiga.