Jón Rúnar Halldórsson stjórnarmaður í ÍTF og fyrrum formaður knattspyrnudeildar FH svarar fyrir sig í aðsendri grein á Fótbolta.net sem birt var seint í gærkvöldi.
Þar svarar hann Nóa Björnssyni sem hafði áður skrifað pistil þar sem fyrirsögnin var. „Vill knattspyrnuhreyfingin fá Jón Rúnar sem aftursætisbílstjóra?,“ skrifaði Nói.
Nói hefu verið lykilmaður í starfinu hjá Þór/KA sem er kvennalið stórliðanna á Akureyri. Í pistli sínum skorar Nói á fólk að kjósa Vöndu Sigurgeirsdóttir til formanns KSÍ og níðir á sama tíma Sævari Péturssyni skóinn sem sækist einnig eftir embættinu. Kosið verður á morgun.
Nói telur í pistli sínum að Sævar verði strengjabrúða Jóns Rúnars vegna tengsla þeirra í ÍTF sem eru hagsmunasamtök félaga í efstu deildum karla og kvenna. Jón Rúnar telur þetta af og frá og skrifar pistil vegna þess.
„Nú þegar formannskjör KSÍ stendur fyrir dyrum er fólki heitt í hamsi. Þó það sé réttur hvers og eins að setja fram sína skoðun á mönnum og málefnum væri það til mikilla bóta að stuðst væri við staðreyndir. Höfundur að skoðunarpistlinum „Vill knattspyrnuhreyfingin fá Jón Rúnar sem aftursætisbílstjóra?” sem birtist á fotbolti.net fer hörðum orðum um störf og tilgang ÍTF, en því miður er í greininni að finna staðlausa stafi og rangfærslur,“ skrifar Jón Rúnar á Fótbolta.net.
Í pistli sínum segir Nói að fimm karlar sitji í stjórn ÍTF en það er ekki rétt. „Í stjórn ÍTF sitja sex karlar og ein kona sem öll vilja veg íslenskrar knattspyrnu sem mestan. Það hafa þau öll sýnt með sjálfboðaliðastarfi sínu í þágu hreyfingarinnar um árabil, bæði hjá sínum félögum og í starfi ÍTF,“ skrifar Jón.
ÍTF var í fyrsta sinn að selja sjónvarpsréttinn og aðra rétti í kringum tvær efstu deildir karla og kvenna. Þannig fá kvennadeildir í fyrsta sinn fjármuni fyrir sölu á þessum rétti.
„ÍTF hefur ekki, þar til nú, haft neinar aðrar tekjur en félagsgjöld og framlag KSÍ til rekstrar skrifstofu samtakanna og engir fjármunir runnið til félaganna, hvorki til karla- né kvennaliða. Það má hins vegar við þetta bæta að nú þegar ÍTF hefur tekið við sölu réttinda, gerist það í fyrsta skipti að ágóði af sölunni rennur til kvennaliða. Eitt er þó víst að ekki hafa áður verið gerðir viðlíka samningar innan íþróttahreyfingarinnar á Íslandi og það ber að þakka ekki lasta.“
Jón Rúnar Furðar sig á fyrirsögn pistils Nóa en hann minnist ekki einu orði á Jón í pistil sínum. „ Mér er það hulin ráðgáta á hvern hátt greinarhöfundur finnur til fyrirsögn á pistil sinn en þar segir, „Vill knattspyrnuhreyfingin fá Jón Rúnar sem aftursætisbílstjóra?“ Ég geng að því sem vísu að sá Jón Rúnar sem greinarhöfundur á við, sé undirritaður. Greinarhöfundur verður að hafa það sem honum sýnist best en ekki veit ég til þess að við greinarhöfundur þekkjumst sérstaklega,“ skrifar Jón.
„Fæst erum við gallalaus en það er hins vegar þekkt að þeir sem manninn minnst þekkja hafa hvað mestar skoðanir á honum og þá oftast neikvæðar. Byggja það raunar oftast á því sem þeir hafa heyrt frá öðrum, sem þá heldur ekki þekkja þennan sama mann.“
Nói gagnrýnir framgöngu ÍTF þegar Guðni Bergsson og stjórn hans sagði af sér síðasta haust. ÍTF kallaði eftir afsögn þeirra. „Eitt er þó hvað verst í þessu. Greinarhöfundur getur varla á heilum sér tekið er hann lýsir mannvonsku þeirra aðila er fara fyrir þessum 28 liðum sem mynda ÍTF. Þar lýsir hann aðför þessara ómenna gegn stjórnarmönnum KSÍ, að þessir sömu aðilar hafi í raun og sann eyðilagt mannorð þeirra sem skipuðu stjórn KSÍ og það jafnvel úr þeirra eigin félögum.“
Jón Rúnar skrifar svo að betra væri fyrir Nóa að lofsyngja Vöndu frekar en að níða Sævari skóinn. „Ég skil hugrenningar greinarhöfundar þannig að pistillinn sé ætlaður til stuðnings öðrum frambjóðandanum til formanns KSÍ. Ég er þeirrar skoðunar að árangursríkara hefði verið að lýsa mannkostum frambjóðandans enda trúi ég því að nær öll innan knattspyrnuhreyfingarinnar fyrirlíti áróður sem þennan.“