Paul Merson, fyrrverandi leikmaður Arsenal og sparkspekingur hjá Sky Sports, segir Liverpool eiga yfir að skipa bestu framlínu í knattspyrnuheiminum á ný.
Hann segir Sadio Mane, Roberto Frimino og Mohamed Salah, fremstu leikmenn Liverpool, hafa endurheimt stöðu sína sem besta framlína heims og telur þá geta orðið til þess að Liverpool nái markmiðum sínum á tímabilinu sem hljóti að vera að endurheimta enska meistaratitilinn.
,,Það er nánast ekki hægt að stöðva þessa þrjá, þeir geta splundrað liðum og skorað þrjú til fjögur mörk á tuttugu mínútna kafla. Það var það sem skipti svo miklu máli fyrir Liverpool er liðið var enskur meistari á sínum tíma og nú hefur liðið endurheimt það,“ skrifar Merson í pistli sem birtist á vefsíðu Sky Sports.
Hann segir þetta merkilega þróun mála þar sem það getur reynst erfitt fyrir slíkt þríeyki að komast aftur á toppinn eftir að hafa átt erfiða tíma á síðasta tímabili þar sem Liverpool mistókst að verja titilinn í ensku úrvalsdeildinni.