fbpx
Fimmtudagur 08.desember 2022
433Sport

Nærmynd af Arnari Gunnlaugssyni – Úr hetju í skúrk og aftur til baka í Fossvogi

Aron Guðmundsson
Föstudaginn 15. október 2021 20:00

Arnar Bergmann Gunnlaugsson, þjálfari Víkings Reykjavíkur Torg/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

,,Fótbolti er lífið,” er svar Arnars Bergmanns Gunnlaugssonar er hann er beðinn um að botna setninguna fótbolti er… í hlaðvarpsþættinum 24/7 í umsjón Bergsveins Ólafssonar

Saga Víkings Reykjavíkur og Arnars Gunnlaugssonar hófst í nóvembermánuði árið 2017 þegar hann var ráðinn sem aðstoðarþjálfari Loga Ólafssonar hjá félaginu. 

Tímabilið 2018 enda Víkingar í 9. sæti efstu deildar, vinna sex leiki, enda með 25 stig, sex stigum frá fallsæti og komast í átta liða úrslit bikarkeppninnar þar sem 0-1 tap á heimavelli gegn Víkingi Ólafsvík gerir út um bikardrauma liðsins. Logi Ólafsson lætur af störfum eftir tímabilið.

Þurfti að selja leikmönnum hugmyndafræði sína

Laugardaginn 6. október 2018 er tilkynnt um eftirmann Loga. Arnar Gunnlaugsson tekur við stjórnartaumunum og gerir tveggja ára samning við Víking. Þar með hófst uppbyggingartímabil sem átti eftir að bera árangur.

Arnar fór að setja sitt handbragð á Víkingsliðið, eftir sinni hugmyndafræði.

,,Ég þurfti að setja mig í leikarabúning til að byrja með. Ég þurfti að selja leikmönnum mínum ákveðna hugmyndafræði sem menn höfðu ekki séð áður og voru ekki vanir að spila eftir,” sagði Arnar í viðtali hjá Hjörvari Hafliðasyni í hlaðvarpsþættinum Dr. Football um upphafsskeið sitt sem aðalþjálfari Víkings.

Þörf var á breytingum á leikmannahópi liðsins. Inn komu leikmenn á borð við Óttar Magnús Karlsson sem sneri heim úr atvinnumennsku, Guðmund Andra Tryggvason og landsliðsmaðurinn Kári Árnason bættist við leikmannahópinn. Arnar vildi blöndu af ungum, hungruðum leikmönnum og reynslumeiri leikmönnum.

Kári Árnason gekk til liðs við Vikinga tímabilið 2019 / Mynd: Eyþór Árnason

Úrslitin í deildinni sumarið 2019 gáfu ekki til kynna mikla breytingu frá því árið áður ef horft var á stigasöfnun liðsins í deildinni og hún borin saman við tímabilið árið áður. Víkingur endaði í 7. sæti Pepsi-Max deildarinnar með 28 stig og var í botnbaráttu í byrjun tímabils.

Uppskeran var því þremur stigum meiri en árið áður. Annað var hins vegar upp á teningnum í bikarkeppninni þar sem að liðið komst í úrslitaleikinn og lagði þar FH-inga af velli með 1-0 sigri. Titill á fyrsta tímabili Arnars með liðið því staðreynd og fyrsti bikarmeistaratitill liðsins í 48 ár.

,,Við héldum kúlinu í gegnum allt tímabilið og vorum ekki mikið að tala um fallbaráttu. Ástæðan fyrir því var sú að við vorum að spila ágætlega en það vantaði bara kunnáttuna í að klára leiki sem að gerist oft þegar að þú ert með unga leikmenn. Ef þeir bæta sig leik frá leik þá læra þeir að klára leiki, læra að vinna leiki. Reynsluboltarnir byrjuðu að tínast inn í liðið þegar leið á leiktíðina, púsluspilin fóru að smella saman og úr varð bara topplið,“ sagði Arnar í viðtali við RÚV um tímabilið 2019 eftir að Víkingar höfðu tryggt sér bikarmeistaratitilinn.

Bikarmeistarar 2019

Talaði digurbarkalega og fékk það í bakið

Tímabilið 2020 átti eftir að reyna á alla, bæði innan vallar og utan. Knattspyrnulið á Íslandi stóðu frammi fyrir þeim veruleika að allt það sem hét eðlilegar fótboltaæfingar og leikir þurfti að aðlaga að sóttvarnaraðgerðum sem voru settar á sökum Covid-19 faraldursins. Langt var liðið á undirbúningstímabilið hér á landi þegar allt var stoppað.

Arnar hafði gert nokkrar breytingar á leikmannahóp sínum milli tímabila en hafði á heildina litið haldið lykilmönnum hjá liðinu og bætt við sterkum póstum á borð markmanninn Ingvar Jónsson sem sneri heim úr atvinnumennsku og það sama mátti segja um Atla Barkason og Kristal Mána Ingason sem kom á láni frá FC Kaupmannahöfn.

Mynd/Eyþór Árnason

Arnar ætlaði sér stærri hluti heldur en tímabilið 2019. Hann stefndi með Víkinga í titilbaráttu en í spá formanna, þjálfara og fyrirliða um lokastöðu liða í deildinni var Víkingum spáð 6.sæti.

Það gafst tækifæri til þess að hefja Íslandsmótið um miðjan júní sem er nokkuð seinna en vanalegt er. Fljótlega varð ljóst að Víkingar myndu ekki berjast um Íslandsmeistaratitilinn. Uppskeran var rýr það árið þvert á fyrirætlanir og yfirlýsingar Arnars Gunnlaugssonar. Víkingar enduðu í 10. sæti Pepsi-Max deildarinnar með 17 stig, 27 stigum frá liði Vals sem stóð uppi sem Íslandsmeistari.

Í viðtali í sjónvarpsþættinum 433.is í apríl á þessu ári fór Arnar yfir tímabilið 2020.

,,Mér fannst ástæða til þess að tala svona fyrir tímabilið 2020. Þetta var digurbarkalega talað, ég geri mér grein fyrir því og ég fékk það í bakið en málið var bara að við vorum með gríðarlega öflugt lið. Vandamálið var hins vegar að þetta öfluga lið spilaði ekki nægilega marga leiki saman í fyrra. Við fórum að missa móðinn þegar að það blés á móti okkur og þegar að það var snemma ljóst að við værum ekki að fara gera okkur gildandi, hvorki í bikar né deild, þá misstu menn bitið sem þarf til að vera topplið.“

Úrslitin ekki ákjósanleg en Arnar naut trausts

Þrátt fyrir að úrslitin tímabilið 2020 hefðu verið langt undir pari var það auðsjáanlegt að mikið traust hafði myndast milli Arnars og stjórnar knattspyrnudeildar Víkings. Þann 15. apríl 2021 er tilkynnt um nýjan þriggja ára óuppsegjanlegan samning milli Arnars og Víkings.

Þann 14. október síðastliðinn tók ég viðtal við Arnar og spurði hann út í þennan samning og þá staðreynd að hann hafi verið gerður á þeim tímapunkti þegar að liðið hafði staðið langt undir væntingum tímabilið.

,,Það er gríðarlega mikilvægt að finna þetta traust og sérstaklega í fyrra þegar að okkur gekk illa. Ég er ekkert það heimskur að sjá það að við þjálfarar erum í starfi sem krefst úrslita og það hefði verið auðvelt að þakka mér bara fyrir samstarfið á þessum tíma. En menn héldu í trúnna. Önnur lið mættu taka þetta til sín, það er að segja hvernig stjórnin tók á þessu máli. Stjórnin sá að það var einhvað í gangi þrátt fyrir að úrslitin væru ekki að falla með okkur.“

,,Það verður samt að hafa það í huga að spilamennskan þarf að fylgja í kjölfarið. Það er slæmur kokteill ef spilamennskan er slæm og úrslitin koma ekki í kjölfarið. Sem betur fer er klókt knattspyrnuáhugafólk í stjórn Víkings sem sá að við vorum á réttri leið,” sagði Arnar í viðtali sem ég tók við hann 14. október síðastliðinn.

Þolinmæði þrautir vinnur allar

Væntingunum var stillt í hóf fyrir tímabilið 2021. Fæstir bjuggust við því að Víkingar myndu gera atlögu að Íslandsmeistaratitlinum, þeim var spáð 7. sæti fyrir mót en Arnar var sáttur við að ekki væri verið að bendla liðið við titilbaráttu í fjölmiðlum fyrir mót.

,,Ég var alveg sáttur við þá umræðu og við ákváðum að vera ekkert að reyna breyta henni. En við vissum að ef við fengjum meðbyr að við gætum komið á óvart. Byrjunarliðið okkar var mjög sterkt og aðalmálið okkar var að miðverðirnir okkar héldust heilir út leiktíðina. En það kom okkur mest á óvart hversu sterkt varamannabekkurinn okkar var að koma inn,“ sagði Arnar í viðtali í þættinum 433.is í september síðastliðnum.

Leikstíllinn sem Arnar vill spila krefst mikillar ákefðar og orku af leikmönnum. Það að varamenn Víkings skildu koma svona sterkir inn í leiki á tímabilinu reyndist vera eitt helsta vopn liðsins út leiktíðina.

Byrjunin á Íslandsmótinu gaf tóninn. Víkingar tryggðu sér 13 stig af 15 mögulegum í fyrstu fimm leikjum tímabilsins og þar á meðal var sterkur 3-0 heimasigur á Breiðablik og 1-0 útivallarsigur á KA. Takturinn var jafn og þéttur í gegnum mótið og liðið vann 8 af síðustu 10 leikjum sínum í Pepsi-Max deildinni.

Úrslitin réðust í lokaumferðinni. Það yrði annað hvort Breiðablik eða Víkingur Reykjavík sem myndi hampa Íslandsmeistaratitlinum. Sigur Víkinga á Leikni R. myndi tryggja þeim Íslandsmeistaratitilinn, þann fyrsta hjá karlaliði félagsins síðan 1991. Svo fór að Víkingur kláraði verkefnið fagmannlega með 2-0 sigri. Íslandsmeistaratitilinn í höfn.

„Víkingur er stórt félag og ég sjálfur gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en ég var mættur á svæðið…Það er gífurlegur kraftur í þessu félagi og vonandi þurfa menn ekki að bíða í önnur 30 ár eftir næsta Íslandsmeistaratitli,“ sagði Arnar í sjónvarpsþætti 433.is í september síðastliðnum.

Íslandsmeistarar 2021 Mynd/Anton Brink

Möguleiki á tvennunni og að rita nafn sitt í sögubækur

Verkefni Arnars með Víkinga er ekki lokið. Liðið á leik á morgun í bikarúrslitum þar sem andstæðingurinn er uppeldisfélag Arnars, ÍA sem spilar undir stjórn Jóhannesar Karls Guðjónssonar. Víkingar geta orðið ellefta félagið til þess að vera handhafi bæði íslands- og bikarmeistaratitilsins eftir tímabilið.

 Skagahjartað verður lagt til hliðar. Ég er náttúrulega fæddur og uppalinn á Skaganum og maður vill sínum klúbbi alltaf vel. Það var mjög mikil ánægja hjá mér þegar að ég frétti af því að þeir hefðu bjargað sér frá falli. Ég held að það sé vilji flestra að Skaginn sé í efstu deild og að standa sig vel en á laugardaginn er það Víkingshjartað alla leið,“ er svar Arnars er ég spyr hann á blaðamannafundi fyrir úrslitaleikinn hvort að Skagahjartað verði lagt til hliðar á morgun.

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Margir hissa þegar hann mætti á fundinn særður á andliti – Segir frá furðulegri ástæðu þess

Margir hissa þegar hann mætti á fundinn særður á andliti – Segir frá furðulegri ástæðu þess
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Hjólar í Ronaldo og segir þetta nýja athæfi hans ófyrirgefanlegt – Rifjar upp vondar stundir hjá United

Hjólar í Ronaldo og segir þetta nýja athæfi hans ófyrirgefanlegt – Rifjar upp vondar stundir hjá United
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Ofurtölvan stokkar spilin – Þetta verður úrslitaleikur HM

Ofurtölvan stokkar spilin – Þetta verður úrslitaleikur HM
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Sterling hoppar upp í flugvél til Katar í dag

Sterling hoppar upp í flugvél til Katar í dag
433Sport
Fyrir 22 klukkutímum

Segist hafa verið ömurlegur á HM – ,,Frammistaða mín var stórslys“

Segist hafa verið ömurlegur á HM – ,,Frammistaða mín var stórslys“
433Sport
Fyrir 23 klukkutímum

Dagur að kveldi kominn í Breiðholti

Dagur að kveldi kominn í Breiðholti
433Sport
Í gær

Allt er þegar þrennt er – Kristinn Freyr aftur heim í Val

Allt er þegar þrennt er – Kristinn Freyr aftur heim í Val
433Sport
Í gær

Liðsfélagi Íslendings fær þungan dóm – Tók þátt í að hópnauðga ungri konu

Liðsfélagi Íslendings fær þungan dóm – Tók þátt í að hópnauðga ungri konu