Manchester City mætti á Anfield í lokaleik 7. umferðar í dag. Liverpool byrjaði leikinn taplaust í ensku úrvalsdeildinni en City unnu góðan sigur á Chelsea á útivelli í síðustu umferð.
Það var markalaust þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks en City var örlítið betri aðillinn í hálfleiknum.
Sadio Mané kom Liverpool yfir eftir tæplega klukkutíma leik eftir frábæra skyndisókn heimamanna. Mohamed Salah laumaði boltanum inn á Mané sem afgreiddi boltann örugglega í netið framhjá Ederson í markinu.
Phil Foden jafnaði metin tíu mínútum síðar eftir sendingu frá Gabriel Jesus en Salah kom Liverpool í 2-1 með frábæru einstaklingsframtaki á 76. mínutu. Salah dansaði framhjá nokkrum varnarmönnum City og hamraði boltann í fjærhornið.
Adam var ekki lengi í paradís og Kevin de Bruyne jafnaði fyrir Englandsmeistaranna fimm mínútum síðar. Þar við sat og lokatölur 2-2 í fjörugum leik. Liverpool er í 2. sæti með 15 stig en City er í 3. sæti með 14 stig.