Mist Edvardsdóttir hefur vakið athygli fyrir öfluga frammistöðu með Val í efstu deild kvenna í knattspyrnu í sumar. Það er ekki bara frammistaðan sem hefur vakið athygli því saga hennar er ótrúleg, saga hetju sem aldrei gefst upp.
Þau eru misjafnlega erfið verkefnin sem fólk fær í lífinu en Mist sem er 29 ára gömul hefur barist við krabbamein á lífsleiðinni auk þess sem hún hefur í þrígang slitið krossband. Slík meiðsli eru á meðal þeirra erfiðustu sem íþróttafólk getur lent í.
Fyrir sex árum síðar fór Mist að finna fyrir einkennum krabbameins og greindist með krabbamein í eitlum.
„Þetta er í febrúar 2014 sem ég tek fyrst eftir einhverju en ég fæ ekki greininguna fyrr en í júní. Ég man að ég var heima hjá mér að bursta tennurnar og lyfti upp hendinni þá fannst mér bara poppa út kúlur á hálsinum. Ég man að ég fór til mömmu í lok maí og sagði bara annað hvort er ég að verða eitthvað klikkuð eða þá að það er eitthvað að,“ sagði MIst í samtali við RÚV.
Mist taldi að það yrði leikur einn að koma sér í gang eftir lyfjameðferð. „Maður er svo barnslega einfaldur, ég hugsaði bara ókei þetta er sex mánaða lyfjameðferð og ég dett út í júní og er búin um jólin, ég get verið kominn á Algarve með landsliðinu í mars. Það var alls ekki málið, ég var ekki einu sinni byrjuð að æfa í mars.“
Eftir sigurinn á þessum alvarlega sjúkdómi hefur Mist svo slitið krossband í þrígang en aldrei gefist upp. Hún telur sig eiga nóg eftir á knattspyrnuvellinum. „Er ekki alltaf talað um mílur á tanknum? Minn tankur hefur verið í geymslu í einhvern tíma. Ég hef lært það síðustu ár að vera ekkert að plana of mikið framhaldið. Á meðan ég hef gaman að þessu og mér líður vel þá langar mig að halda áfram,“ sagði Mist við RÚV.