Fram kemur í þýskum fjölmiðlum að leikmenn þar í landi gætu þurft að spila með grímu, þegar deildin fer aftur af stað.
Stefnt er á að hefja leik í þýsku deildinni þann 9 maí en í minnisblaði frá ríkisstjórninni kemur þetta fram.
Þar segir að leikmenn gætu þurft að spila með grímur, ef gríma dettur af leikmanni þarf að stöðva leik. Leikmönnum verður bannað að snerta grímurnar.
Þjóðverjar hafa náð góðum tökum á kórónuveirunni og vilja hefja leik sem fyrst. Engir áhorfendur verða á vellinum í Þýskalandi þegar deildin fer af stað á nýjan leik.
Ljóst er að það gæti orðið erfitt fyrir knattspyrnumenn að spila með grímu enda erfiðara að anda að sér súrefni.
Alfreð Finnbogason leikur með Augsburg í efstu deild og Samúel Kári Friðjónsson með Paderborn í efstu deild þar í landi.