Luis Suarez, leikmaður Barcelona, er opinn fyrir því að enda ferilinn í heimalandinu, Úrúgvæ.
Þetta segir Sebastian Abreu, fyrrum liðsfélagi Suarez, sem er nú leikmaður og stjóri Boston River í landinu.
Abreu er einnig fyrrum leikmaður Nacional en þar byrjaði Suarez einmitt knattspyrnuferilinn.
Hann er enn í bandi við vin sinn sem hefur gert það gott hjá Ajax, Liverpool og svo Barcelona á ferlinum til þessa.
Abreu stefnir á að taka við Nacional einn daginn og gæti Suarez þá fært sig yfir ef það gerist.
,,Ég ræddi við Suarez og hann sagði mér að ef ég væri stjóri Nacional þá gæti hann snúið aftur,“ sagði Abreu.
Suarez sagði þó sjálfur í febrúar að hann væri ánægður hjá Barcelona og að ef hann spilaði 60 prósent leikja á næsta ári þá myndi samningur hans vera framlengdur.