Santiago Canizares, fyrrum markvörður spænska landsliðsins, setti inn ansi umdeilt tíst í dag áður en hann eyddi því út.
Canizares tjáði sig um dauða Jose Antonio Reyes en hann lést í bílslysi í gær aðeins 35 ára gamall.
Slysið átti sér stað í borginni Seville á Spáni en bifreið Reyes mældist á 190 kílómetra hraða.
Canizares segir að Reyes eigi ekki skilið að vera fagnað sem hetju og að hann hafi verið kærulaus fyrir aftan stýrið.
,,Þetta sýnir að þér getur verið refsað fyrir að keyra á svo miklum hraða. Í þessu hræðilega slysi þá voru fleiri en bílstjórinn sem slösuðust,“ sagði Canizares.
,,Reyes á ekki skilið að vera heiðraður eins og hetja. Það breytir því þó ekki að ég er miður mín yfir því sem gerðist og bið fyrir þeirra sál.“