fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024

Hvernig hefðu Íslendingar brugðist við hernámi nasista?

Valur Gunnarsson veltir þessari spurningu upp í skáldsögunni Örninn og Fálkinn

Kristján Guðjónsson
Föstudaginn 10. nóvember 2017 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar Íslendingar vöknuðu 10. maí 1940 við þær fréttir að landið hafi verið hernumið, voru líklega fyrstu viðbrögð flestra að spyrja: „Eru það Bandamenn eða nasistar?“ Í þeirri sögu sem við höfum lifað og þekkjum voru það Bretar sem stigu á land og hafði sú staðreynd ómæld áhrif á íslenskt þjóðfélag næstu ár og allar götur síðan. En hvað ef það hefðu verið nasistar?

Þetta er spurningin sem Valur Gunnarsson veltir fyrir sér í þriðju skáldsögu sinni Örninn og Fálkinn. „Í huga samtímamanna var þetta raunveruleg hætta,“ útskýrir Valur fyrir blaðamanni. Í bókinni rekur hann atburðarás þýsks hernáms, áhrif þess á framgang stríðs, borgarþróun og samfélagið, samstarf og andspyrnu heimamanna.

Bókin er sett upp eins og endurminningabók Sigurðar Emils Jónassonar, ungs Reykvíkings og sveimhuga sem verður óvart vitni að mörgum helstu atburðum hernámsins, er að rúlla heim af fylleríi morguninn sem hermenn ganga á land, fær talsverða innsýn í atburðarásina í krafti starfs síns sem „símadama“ hjá Landssímanum og flækist óvart inn íslensku andspyrnuhreyfinguna þar sem hann endar í ævintýralegri háskaför sem hefur afdrifaríkar afleiðingar fyrir styrjöldina.

Óslökkvandi áhugi á stríðinu

Valur, sem hefur numið sagnfræði og starfað sem ritstjóri og blaðamaður samhliða rithöfundarferlinum, segist hafa haft óslökkvandi áhuga á seinni heimsstyrjöldinni frá barnæsku. Hann ólst upp á níunda áratugnum þegar strákar léku ennþá styrjaldarþjóðirnar í byssu- og tindátaleikjum og lásu hinar vinsælu frönsku teiknimyndabækur frá útgáfunni Fjölva um ýmsar orrustur heimsstyrjaldarinnar.

„Hugmyndin hefur verið mjög lengi að gerjast. Þegar þessar Fjölvabækur voru gefnar út á íslensku skrifaði Þorsteinn Thorarensen yfirleitt inngang um Ísland í tengslum við þá atburði sem bókin fjallaði um. Í einni bókanna nefnir hann Íkarusáætlunina sem Hitler lét gera í júlí 1940 um að ráðast á Ísland. Ég er líklega búinn að vera að pæla ómeðvitað í þessari bók frá því að ég las þetta. Eftir að hafa svo lesið allt of mikið um seinni heimsstyrjöldina í gegnum tíðina hefur maður svo ítrekað velt þessu fyrir sér; hvað hefði getað farið öðruvísi?“ segir Valur.

„Þegar ég var staddur í Noregi 9. apríl 2015, þegar þeir voru að minnast 70 ára frá innrás Þjóðverja í Noreg, fannst mér vera kominn tími til að ráðast í þetta. Ég hafði alltaf verið að bíða eftir bók eins og þessari, en endaði á því að þurfa að skrifa hana sjálfur.“

Bókin er innblásin af hvað-ef-sögum sem fjalla um það sem hefði getað gerst ef hinir ýmsu atburðir í mannkynssögunni hefðu þróast öðruvísi. Það er ekki síst seinni heimsstyrjöldin sem hefur orðið mönnum innblástur við slíkar pælingar og eru skáldsögur byggðar á þeim komnar langleiðina með að verða að sérstakri bókmenntagrein: Man in the high castle, Fatherland, Making history og The plot against America eru bara örfá dæmi.

Ég hafði alltaf verið að bíða eftir bók eins og þessari, en endaði á því að þurfa að skrifa hana sjálfur.

Rithöfundurinn hefur sent frá sér sína fyrstu hvað-ef-sögulegu skáldsögu og segist strax vera farinn að leggja drögin að þeirri næstu.
Valur Gunnarsson Rithöfundurinn hefur sent frá sér sína fyrstu hvað-ef-sögulegu skáldsögu og segist strax vera farinn að leggja drögin að þeirri næstu.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Raunhæfur möguleiki?

Það er auðvitað ógerningur að svara því hvort eitthvað sem ekki varð að veruleika hafi geta orðið, en í bókinni sérðu að minnsta kosti fyrir þér atburðarás þar sem nasistar hefðu getað hertekið Ísland – var þetta sem sagt raunhæfur möguleiki á einhverjum tímapunkti?

„Það var að minnsta kosti möguleiki í huga Hitlers enda lét hann gera þessa frægu Íkarusáætlun í júlí 1940, eftir að Bretar höfðu hernumið Ísland. Að lokum var ákveðið að framkvæma hana ekki því það var álitið að það yrði of harkalegt og Þjóðverjar hefðu líklega tapað landinu fljótt aftur, það væri of erfitt að halda því frá breska flotanum. En í þessari skáldsögu langaði mig hins vegar frekar að fást við fyrirbærið hernám frekar en bara stríðssögu og vildi þess vegna láta Þjóðverjana koma á undan Bretum. Í huga samtímamanna var þetta raunhæfur möguleiki og ein meginréttlætingin fyrir komu Breta. Þessi ótti sýnir sig til dæmis í því að þegar þýskir gyðingar sem voru á landinu fréttu að herinn væri kominn fóru þeir margir hverjir að fela sig í kjöllurum,“ segir Valur.

„En til að þessi atburðarás væri virkilega raunhæf hefði þó eitthvað annað þurft að fara öðruvísi fyrr í stríðinu. Það sem ég geri er að láta Norðmenn gefast upp eftir tvo daga frekar en tvo mánuði, en það er eitthvað sem þeir voru virkilega að íhuga að gera. Þótt orrustan um Noreg hafi verið vel heppnuð frá sjónarhóli Þjóðverja misstu þeir samt stóran hluta flotans, en ef það hefði ekki gerst hefðu þeir auðveldlega getað haldið áfram til Íslands,“ segir Valur og rekur hugmyndir Hitlers um að umkringja Bretland með því að taka Skandinavíu, Írland og Ísland. Hann segir að hernám Íslands hefði enn fremur komið í veg fyrir birgðasendingar til Rússlands og þegar Bandaríkin myndu loks lýsa yfir stríði hefði víglínan ekki síst verið milli Grænlands og Íslands. „Í stað þess að Bandaríkin færu að ráðast inn í Afríku og Ítalíu er líklegt að áherslan hefði orðið meiri á Norður-Atlantshaf og Norðurslóðir.“

Með augum samtímamanna

Það sem er kannski hvað áhugaverðast í bókinni er hvernig viðbrögð Íslendinga eru teiknuð upp, bæði venjulegra borgarbúa sem reyna að láta hernámið ekki of mikið á sig fá og svo stjórnmálamanna og annarra sem reyna að færa sér ástandið í nyt. Flestum Íslendingum er fyrst og fremst umhugað að vera með sigurvegaranum í liði þegar stríði lýkur – hver sem það nú verður. Þá teiknar Valur upp breytingar sem hlytu að verða á borgarlífinu – bjór er leyfður og Íslendingar taka upp þýska siði – og borgarmyndinni – „autobahn“ er lagður og herflugvöllur byggður á Kaldaðarnesi frekar en Vatnsmýrinni. Margt af þessu byggir hann á raunverulegum hugmyndum sem Þjóðverjar voru með á millistríðsárunum en einnig á því hvernig nasistar nálguðust uppbyggingu í þeim löndum sem þeir hernámu.

„Ég skoðaði mikið hið raunverulega hernám Íslands og sneri því við. En ég setti mig líka vel inn í hernámssögu Noregs og Danmerkur. Ólíkt því sem var til dæmis í Póllandi þar sem hernámið hófst með fjöldamorðum þá var markmið hernámsyfirvalda í Danmörku að ganga ekki of hart fram og helst fá fólk með sér í lið, enda áttu þessi svæði að verða partur af Germaníu eftir stríð. Það voru margir sem unnu með nasistum í báðum löndum en svo var það helst þegar fór að syrta í álinn hjá þeim sem andspyrnuhreyfingarnar fóru að skjóta upp kollinum. Þetta er það sem flestir vilja hampa en gleyma frekar fyrri hlutanum.“

Maður upplifir þetta á vissan hátt í bókinni. Í upphafi hennar virka þær breytingar sem verða á Reykjavík og íslensku þjóðlífi við hernámið ekki alslæmar og nasistarnir margir vinalegir en það er ekki fyrr en líður á bókina sem skuggahliðar alræðisstjórnarinnar fara að koma í ljós.

„Já. Að einhverju leyti er ég að reyna að sjá þetta með augum samtímamanna frekar en að hugsa aftur á bak eins og við gerum yfirleitt, þar sem við byrjum á helförinni og Auschwitz og setjum svo allt í samhengi við það. En á þessum tíma var það ekki vitað eða mönnum efst í huga. Ég þurfti að standast þá freistingu að sýna nasismann strax sem vondan, þó að það komi auðvitað í ljós þegar á líður, En það voru auðvitað ekki heldur allir Þjóðverjar á þessum tíma vondir eða allir Íslendingar góðir eða annað slíkt. “

Ég er að reyna að sjá þetta með augum samtímamanna frekar en að hugsa aftur á bak eins og við gerum yfirleitt, þar sem við byrjum á helförinni og Auschwitz og setjum svo allt í samhengi við það.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Íslenskir nasistar og andspyrnumenn

Þú ímyndar þér enn fremur hvernig raunverulegir einstaklingar úr íslensku þjóðlífi hefðu brugðist við aðstæðunum, til dæmis hverjir hefðu starfað með nasistum, hverjir hefðu njósnað fyrir Breta og hverjir hefðu endað í fangabúðum. Sveinn Björnsson verður ríkisstjóri – eða Reichsführer – landsins á meðan Stefán Jóhann Stefánsson flýr til Bretlands og gagnrýnir ástandið á Íslandi. Þórbergs Þórðarsonar bíða hörmuleg örlög í fangabúðum við Kleppjárnsreyki en Halldór Laxness flýr til Bandaríkjanna og gerist handritshöfundur í Hollywood. Varst þú ekkert smeykur við að draga slíkar ályktanir um mögulega hegðun raunverulegra einstaklinga?

„Það hafa margir verið að spyrja mig að þessu, en ég verð að viðurkenna að ég skil nánast ekki spurninguna. Þetta er bara innifalið í þessari bókmenntagrein – ef það væri ekki tekið mið af raunverulegum aðstæðum þá væri þetta ekki hvað-ef-saga! Þetta hefur ekki þótt tiltökumál annars staðar en á Íslandi, kannski er það nálægðin, eða kannski er þetta bara innifalið í tungumálinu – við gerum ekki greinarmun á sögu og sögu,“ segir Valur.

„En auðvitað þarf að fara varlega. Það má til dæmis nefna að Jónas frá Hriflu hefur þá ímynd í dag að hann hafi verið svo rosalega þjóðernissinnaður, fólk man að hann var á móti nútímalist og svoleiðis, og þannig auðvelt að ímynda sér að hann hefði unnið með nasistum. En þegar ég fór að skoða það betur sá ég að hann var líklega sá maður sem íslenskir nasistar hötuðu hvað mest og tók meðal annars að sér njósnir fyrir Breta. Að lokum fékk hann því allt annað hlutverk í skáldsögunni en ég hafði upphaflega hugsað – en þetta er bara byggt á því sem að mér finnst líklegt að hann hefði gert. Af því sem Gísli [Sigurbjörnsson] í Ási sagði og gerði á þessum tíma er svo alveg ljóst að þetta hefði verið óskastaða fyrir hann.“

Sagan ekki þungur straumur

Á meðan fyrri hlutinn er þjóðlífsstúdía og sagnfræðileg spekúlasjón endar bókin sem æsileg spennusaga um háskalegt ráðabrugg lítils flokks andspyrnumanna – atburðarás sem Valur segir kannski helst innblásna af þeim gömlu stríðsmyndum sem hann ólst upp með. Sú persóna sem verður miðlæg í þeirri háskaför er þýski eðlisfræðingurinn og einn af frumkvöðlum skammtafræðinnar, Werner Heisenberg.

„Það vill svo skemmtilega til að persóna Heisenbergs tengir marga þræði saman. Annars vegar er hann sá fræðimaður sem kom fram með óvissulögmálið í skammtafræði, sem bókmenntagreinin byggir að einhverju leyti á. Hann var hins vegar líka mjög áhugaverð söguleg persóna og hefði kannski einn og sér getað breytt gangi stríðsins. Í gegnum hann tengist því bæði söguþráður spennusögunnar og þessar pælingar um aðra mögulega heima,“ segir Valur, en í samtölum Heisenbergs og aðalpersónunnar koma fram nokkrar vangaveltur um óreiðu og orsakasamhengi, fiðrildaáhrif og löghyggju.

„Ég vona að bókin opni svolítið huga fólks fyrir pælingum um söguna og samtímann. Það er svo mikil árátta hjá okkur, bæði í eigin lífi og mannkynssögunni, að álíta að hlutirnir hafi bara farið eins og þeir áttu og þurftu að fara. En við lifum á tímum þar sem við erum stöðugt á krossgötum þar sem hlutirnir geta brugðið til beggja vona. Sagan er ekki bara þungur straumur, heldur afleiðing gjörða ótal einstaklinga. Það er kannski ógnvekjandi að einhverju leyti en það er líka frelsandi, við getum öll haft áhrif, þau virka kannski lítil en geta verið mjög mikil.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Þrjú stórlið vilja kaupa óvænta hetju Real Madrid

Þrjú stórlið vilja kaupa óvænta hetju Real Madrid
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Chelsea skoðar að reka Pochettino – Þrír menn á lista

Chelsea skoðar að reka Pochettino – Þrír menn á lista
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

60 ára og skrefi nær því að verða elsti þátttakandi Miss Universe

60 ára og skrefi nær því að verða elsti þátttakandi Miss Universe
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Löggan fellir niður sektir á þá sem voru gómaðir á nagladekkjum í vikunni

Löggan fellir niður sektir á þá sem voru gómaðir á nagladekkjum í vikunni
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Rannsóknar-Ríkharð með kenningu um það hvernig komst upp um brot Búa og Ísaks – Fengu báðir þungan dóm

Rannsóknar-Ríkharð með kenningu um það hvernig komst upp um brot Búa og Ísaks – Fengu báðir þungan dóm
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Pungurinn virkar ennþá hjá Giggs – Fimmtugur og er að verða faðir

Pungurinn virkar ennþá hjá Giggs – Fimmtugur og er að verða faðir
Fókus
Fyrir 8 klukkutímum

Emma Stone vill ekki lengur vera kölluð Emma

Emma Stone vill ekki lengur vera kölluð Emma