fbpx
Föstudagur 08.ágúst 2025
Fréttir

Stefán og tveir synir hans í fangelsi – „Þeir eru betur settir þarna inni“

Kristinn H. Guðnason, Auður Ösp
Föstudaginn 11. maí 2018 11:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslenskir feðgar, Stefán Árnason Egilsson og synir hans, Stefán Árni og Donovan Tómas, sitja nú á bak við lás og slá í Minnesota-fylki í Bandaríkjunum fyrir ýmis brot. Stefán eldri og Donovan eru vistaðir í sama fangelsi. Fjölskylda þeirra heima á Íslandi vonast til þess að vistin verði til þess að þeir nái að snúa lífi sínu við.

„Við fáum afskaplega litlar fréttir af þeim og ég skil þetta ekki,“ segir Kristín Egilsdóttir, föðursystir Stefáns eldri, sem býr í Hveragerði.

Hafið þið áhyggjur af þeim?

„Nei, alls ekki. Þeir eru áreiðanlega betur settir þarna inni heldur en úti á götu. Þeir hafa verið í eiturlyfjum og pluma sig ágætlega þarna inni.“

Stefán Árnason Egilsson

Framleiddi eiturlyf

Stefán Árnason Egilsson er 51 árs gamall, fæddur 6. ágúst árið 1966, sonur hjónanna Árna og Dorette Egilsson. Stefán ólst upp á góðu menningarheimili í Los Angeles en villtist snemma af leið í lífinu og hóf feril glæpa og eiturlyfjaneyslu. Hann býr nú í Minnesota-fylki, í sjö þúsund manna bæ skammt frá Minneapolis sem nefnist New Prague. Kristín segir:

„Stefán kom hingað til Íslands þegar hann var ungur maður og dvaldi í nokkurn tíma en hann var í bölvuðu rugli hér líka. Þetta var áður en hann kvæntist. Síðan eignaðist hann þrjú börn, dóttur og tvo syni, og báðir drengirnir hans hafa verið í fangelsi. Þannig að þetta er alveg skelfilegt mál, skelfilega dapurlegt.“

Kristín segir að Stefán eldri hafi margoft verð handtekinn fyrir ýmisleg brot. Flest smávægileg en ekki öll.

„Einhvern tímann á þessum brotaferli var hann að búa sjálfur til eitthvert eiturefni, pillur eða sýrur, og hann var tekinn fyrir það. Þetta er löng brotasaga.“

New Prague er á mörkum sýslanna Scott og La Sueur og í dag situr Stefán inni í Scott County Jail fyrir ítrekuð brot. Þann 31. mars var hann tekinn fyrir að gefa út falsaðan tékka, taka við þýfi, keyra án ökuskírteinis og hafa eiturlyf í sínum fórum. Þegar hann hóf afplánun sína þann 3. apríl og var að skipta um föt fannst plastpoki með hvítu dufti í fötunum hans sem reyndist vera metamfetamín. Mun þetta brot bætast við dóm hans.

Síðasti dómur sem Stefán fékk var í maí árið 2017 þegar hann var gómaður með marijúana í fórum sínum. Í október árið 2016 fékk hann dóm fyrir innbrot, þjófnað og fyrir að gefa út falsaðan tékka.

Stefán Árni Egilsson

„Ég mun kæfa þessa tík“

Börn Stefáns ólust upp á heimili sem einkenndist á eiturlyfjaneyslu og sífelldum brotum fjölskylduföðurins. Ekki leið á löngu áður en synirnir tveir, Stefán Árni og Donovan Tómas, hófu að feta sömu slóð. Kristín segir að systir þeirra hafi hins vegar náð að koma sér út úr ástandinu og sé í góðum höndum í dag.

„Þeir voru komnir á götuna, hreinlega talað, og þetta var alveg skelfilegt ástand. Stefán gerði foreldrum sínum lífið leitt. Auðvitað höfðu þau áhyggjur af honum með drengina. Þó að þeir séu orðnir fullorðnir í dag þá voru þeir það ekki þegar ruglið byrjaði.“

Glæpaferill Stefáns Árna hófst 13. september árið 2011 þegar hann var aðeins átján ára gamall. Þá var hann handtekinn fyrir óspektir á almannafæri og hafði sýnt af sér ofbeldisfulla og ruddalega framkomu.

Tvítugur eignaðist hann barn og stundaði viðskiptanám við tækniháskóla í Rochester. Kristín segir að það ár hafi hann einnig heimsótt Ísland með ömmu sinni. En síðan fór allt í sama far neyslu og smábrota, svo sem fyrir ölvunarakstur í maí árið 2014 og að valda bílslysi í júní árið 2015.

Þann 16. febrúar árið 2016 fékk hann svo þriggja ára fangelsisdóm fyrir að hafa í sínum fórum sex grömm af eiturlyfjum, metamfetamíni, heróíni og kókaíni. Var hann færður í ríkisfangelsið í Faribault og síðar Moose Lake.

Donovan Tómas Egilsson

Donovan Tómas fékk sinn fyrsta þunga dóm árið 2016, þá nítján ára gamall, fyrir brot gagnvart hjúkrunarkonu. Þann 28. janúar það ár kom Donovan á Mayo-sjúkrahúsið í Mankato, Minnesota, til aðhlynningar en veittist þá að hjúkrunarkonunni. „Ég mun kæfa þessa tík“, „Ég vona að hún deyi“ og „Það þarf að brjóta hauskúpuna á henni til að fjarlægja heimskuna“ voru ummæli sem Donovan lét falla og var hann dæmdur fyrir ógnun og óspektir á almannafæri.

Donovan losnaði úr fangelsi og hóf afplánun á áfangaheimili í desember árið 2017 og í mars lauk hann fjögurra mánaða eiturlyfjameðferð. Þann 9. apríl var hann kominn aftur í fangelsi fyrir líkamsárás og vörslu eiturlyfja, og situr nú með föður sínum í Scott County Jail.

Undir væng nasista

Scott County Jail er nýtt fangelsi, stofnað árið 2005. Þar eru 160 klefar, þar af 104 útbúnir fyrir tvo fanga. Fangelsið hýsir bæði gæsluvarðhalds- og langtímafanga af báðum kynjum og unglinga að einhverju leyti. Þetta er fangelsi með mikilli gæslu og litlum réttindum fanga en þar eru þó ýmisleg námskeið og vinnumöguleikar fyrir þá. Þar eru hýstir brotamenn af öllum stigum, allt frá smáglæpamönnum upp í dæmda morðingja.

Moose Lake, þar sem Stefán Árni afplánar, er mun stærra fangelsi með yfir þúsund föngum, stofnað árið 1988. Aðeins karlmenn afplána þar og flestir fyrir eiturlyfjabrot, kynferðisbrot og líkamsárásir. Auk þess eru í yfir hundrað morðingjar í fangelsinu.

Það er þekkt staðreynd að glæpaklíkur stjórna öllu daglegu lífi í bandarískum fangelsum og fara þær oft eftir kynþáttalínum. C.J. Smith, leiðtogi arískra þjóðernissinna, þekkir vel til íslensku feðganna. Þegar Stefán Árni fékk sinn þunga dóm skrifaði Smith á Facebook-síðu Stefáns eldri:

„Hann tók dóminum eins og maður, tók ábyrgð á gjörðum sínum og mun afplána með höfuðið hátt. Við í hvíta kynþættinum erum þess heiðurs aðnjótandi að fá mann eins og hann til okkar, og trúðu mér, við hvítir þjóðernissinnar erum stoltir að taka við honum og sýna honum hinn hvíta veg.“

Árni og Dorette, DV 22. mars 1997

Frægur kontrabassaleikari

Kristín segir að mál feðganna hafi fengið mikið á foreldra Stefáns eldri, þau Árna og Dorette. Árni, sem er 78 ára og hefur búið í Bandaríkjunum um áratuga skeið, er virtur kontrabassaleikari sem hefur gefið út fjölda hljómplatna og spilað á tónleikum víða um Bandaríkin og Evrópu.

Hann lærði í Bretlandi og Hamborg og flutti til Houston og spilaði með sinfóníuhljómsveitinni þar í borg en fluttist svo yfir til Los Angeles árið 1969 þar sem hann hefur spilað inn á meira en þúsund kvikmyndir og sjónvarpsþætti. Þá átti hann í góðu samstarfi við Sir André Previn, fjórfaldan Óskars- og Grammy-verðlaunahafa. Árni hefur einnig spilað inn á klassíska plötu með píanósnillingnum Vladimir Ashkenazy og djassbassaleikaranum Ray Brown. Um tíma var hann prófessor í kontrabassaleik við California State University.

Er Árni í sambandi við Stefán og syni hans?

„Já, að einhverju leyti sem þeir mega. En þeir hafa ekki mátt vera í miklu sambandi. Við höfum ekki áhyggjur af þeim í dag og þetta virðist stefna í góða átt. En það er reyndar ósköp lítið sem foreldrarnir vita og segja mér. Stefán Árni ætlar að reyna að koma sér út úr þessu og fara að læra eitthvað. Hann reyndi það á sínum tíma en það fór fyrir lítið.“

UM Aríska bræðralagið

Aríska bræðralagið, sem stofnað var í San Quentin í Kaliforníu árið 1964, er eins konar regnhlífarsamtök hvítra þjóðernisgengja í Bandaríkjunum og hafa þau starfsemi bæði innan og utan veggja fangelsanna. Heildartala meðlima er á bilinu 15 til 20 þúsund manns og stunda þeir glæpastarfsemi af ýmsum toga, svo sem eiturlyfjasölu, fjárkúgun og leigumorð. Þá reka þeir víðtæka vændisstarfsemi innan veggja.

Í fangelsum Minnesota starfa sex þekkt gengi hvítra þjóðernissinna. Það elsta og jafnframt fjölmennasta er Prison Motorcycle Brotherhood, stofnað árið 1986.

Margir hvítir fangar ganga til liðs við klíkurnar til þess að njóta verndar, jafnvel þótt þeir styðji ekki hugmyndafræði kynþáttahyggju. Meðlimir eru flestir húðflúraðir með merkjum á borð við hakakrossinn og þórshamarinn til að merkja sig. Helstu andstæðingar þeirra eru samtök svartra, Black Guerilla Family, en bandamenn þeirra eru mexíkóska mafían, La Eme.

Scott County Jail

 

Moose Lake
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Gerð afturreka með sölubann á Cocoa Puffs og Lucky Charms – Sönnunarbyrði var lögð alfarið á söluaðila

Gerð afturreka með sölubann á Cocoa Puffs og Lucky Charms – Sönnunarbyrði var lögð alfarið á söluaðila
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vallarstjórinn í Þorlákshöfn ómyrkur í máli eftir atvik í gær – „Engin tilraun var gerð til að kanna eða spyrja um ástand starfsmannsins“

Vallarstjórinn í Þorlákshöfn ómyrkur í máli eftir atvik í gær – „Engin tilraun var gerð til að kanna eða spyrja um ástand starfsmannsins“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Umfangsmikil leit í Noregi að bandarískum blaðamanni

Umfangsmikil leit í Noregi að bandarískum blaðamanni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íris tók námslán árið 2011 sem hún er ekki byrjuð að borga – „Og hvar stendur það núna ef þið hélduð að BA-gráðu lánið mitt væri martröð?“

Íris tók námslán árið 2011 sem hún er ekki byrjuð að borga – „Og hvar stendur það núna ef þið hélduð að BA-gráðu lánið mitt væri martröð?“