fbpx
Föstudagur 03.maí 2024
Fréttir

Skúli sendir mikilvæg skilaboð til ungra drengja: „Vita strákar hvaða áhættu þeir taka?“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 24. október 2018 09:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Á síðustu árum hefur svonefndum lögræðissviptingarmálum fjölgað umtalsvert fyrir héraðsdómi, en undir þessi mál fellur hvers kyns nauðungarvistun vegna geðsjúkdóma.“

Þetta segir Skúli Magnússon, héraðsdómari og fyrrverandi formaður Dómarafélags Íslands, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Skúli segir að merkjanlegan hluta þessara lögræðissviptingarmála megi rekja til ungra manna sem eru ekki einungis með fíknivanda heldur alvarlega geðræna erfiðleika. Segir Skúli að þessir erfiðleikar séu oft á því stigi að nauðungarvistun um lengri tíma er talin nauðsynleg og fyrirsjáanlegt að þeir þurfi meðferð og aðhlynningu alla sína ævi.

Eiga eitt sameiginlegt

„Þessir strákar eiga það sameiginlegt að hafa byrjað reglulega neyslu kannabis ungir, yfirleitt 12-14 ára, og alvarlegur geðsjúkdómur hefur gert vart við sig þegar fyrir tvítugt. Raunar er sláandi hversu eitt mál er líkt því næsta m.t.t. neyslusögu og þróunar einkenna,“ segir Skúli sem vísar í grein sinni í áhugaverða heimildarþætti sem sýndir voru á RÚV fyrir skemmstu.

Þættirnir sem um ræðir, Predict My Future: The Science of Us, fjallaði um viðamikla rannsókn og tók meðal annars á afleiðingum kannabisneyslu.

„Samkvæmt henni eru tengsl milli reglulegrar kannabisneyslu unglingsstráka og geðrofs snemma á fullorðinsárunum hafin yfir vafa. Ef ég man rétt var þar talið að tíundi hver strákur sem byrjaði reglulega neyslu kannabis fyrir 15 ára aldur þróaði með sér geðklofa, sem gengi ekki til baka þótt hætt væri neyslu!,“ segir Skúli sem bætir við að þessar upplýsingar, sem studdar eru öðrum félagsfræðilegum og erfðaþægilegum rannsóknum, komi óþægilega heim og saman við það sem hann hefur séð í starfi sínu.

Þarf að upplýsa ungmenni

„Vita íslenskir strákar á aldrinum 11-15 ára hvaða áhættu þeir taka með því að prófa að reykja gras á þessum aldri? Eða heyra þeir e.t.v. bara kvabb um fíkniefni án þess að átta sig á sérstökum hættueiginleikum kannabis fyrir þá? Hvað myndu þeir segja við því að yfirgnæfandi líkur séu á því að einn úr 10 manna vinahópi, sem reykir reglulega í dag, verði kominn inn á lokaða geðdeild fyrir tvítugt og eigi þaðan ekki afturkvæmt, hvort sem hann hættir að reykja eða ekki?,“ segir Skúli í grein sinni sem hann endar á þessum orðum:

„Það hlýtur að vera alger lágmarkskrafa að hver einasti íslenski strákur undir 15 ára aldri hafi verið vandlega upplýstur um þá sérstöku og óvenjulegu áhættu sem hann tekur með neyslu kannabisefna á þessu skeiði lífs síns. Er víst að þeirri kröfu sé fullnægt?.“

Fiktið kom í bakið á honum

DV fjallaði um þættina í sumar og tók saman upplýsingar sem komu fram. Þar var meðal annars rætt við ungan mann, Chris McMurray, sem var ungur þegar hann byrjaði að fikta með eiturlyf, kannabis þar á meðal. Chris, sem er 25 ára, segir að hann og vinir hans hafi keypt sér gras á nokkurra daga fresti þegar þeir voru unglingar.

„Svo fór ég að kaupa meira og var farinn að reykja mjög reglulega. Það er gaman hjá öllum hinum og manni sjálfum en svo fara litlar hugsanir að verða stærri,“ segir hann.

Þegar hann var sautján ára dundu ósköpin yfir. Þá hafði hann notað kannabis og partípillur svo dögum skiptir og verið vakandi í fjórar til fimm nætur. „Undir lokin tók það mig bara, það var eins og fjúka burt með vindum. Ég var alveg út úr. Alveg bólufreðinn, ég hafði aldrei kynnst annarri eins vímu. Ég var með ranghugmyndir, taldi mig geta lesið hugsanir vina minna. Ég hélt að einn besti vinur minn væri að reyna að drepa mig.“

Síðar kom á daginn að Chris var greindur með geðrof af völdum neyslu. Hann var lagður inn á geðdeild og rankaði við sér þremur dögum síðar. Einkennin hurfu ekki og nú, átta árum síðar, er hann enn með geðklofa.

Chris heldur sjúkdóminum niðri með lyfjum og samtalsmeðferð hjá sálfræðingi en segist óska þess að hann hafi aldrei byrjað að nota fíkniefni. „Ég vildi óska þess að ég hefði aldrei prófað dóp, aldrei reykt gras, að ég hefði ekki reykt svona mikið. Þetta kemur allt í bakið á mér núna. Það er erfitt.“

Í þáttunum kom fram að undir venjulegum kringumstæðum greinist að meðaltali einn af hverjum hundrað með geðklofa. Tíu prósent þeirra sem tóku þátt í rannsókninni sem fjallað er um í þáttunum – og reyktu kannabis reglulega þegar þeir voru unglingar – fengu sjúkdóminn. Hlutfallið er tíu sinnum hærra en meðaltalshlutfallið.

Rússnesk rúlletta

Eftir sýningu þáttanna hvatti Hafrún Kristjánsdóttir íþróttasálfræðingur ungt fólk til að láta það vera að fikta með kannabisefni.

„Ungt fólk sem notar kannabis er í rússneskri rúllettu með heilann á sér. Það margfaldar líkunar á að þróa með sér geðrofssjúkdóma og trúið mér, það eru ekki sjúkdómar sem eru eitthvað léttvægir. Auk þessa þá gerir neysla kannabis, sérstaklega ef þú byrjar ungur að nota þetta drasl þig heimskari, þ.e. greindarvísitalan droppar og það getur haft heilmikið um það að segja hvað viðkomandi getur tekið sér fyrir hendur í lífinu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Vaxandi reiði meðal íbúa Gaza í garð Hamas

Vaxandi reiði meðal íbúa Gaza í garð Hamas
Fréttir
Í gær

Kynferðisbrotin skemma fyrir klifri Sigga hakkara upp metorðastigann í Danmörku

Kynferðisbrotin skemma fyrir klifri Sigga hakkara upp metorðastigann í Danmörku
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einn forsetaframbjóðandi gæti bæst við

Einn forsetaframbjóðandi gæti bæst við
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mögulega ósakhæfur maður ákærður fyrir mjög gróf kynferðisbrot

Mögulega ósakhæfur maður ákærður fyrir mjög gróf kynferðisbrot
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sjötta forsetakönnunin: Hvern vilt þú sjá sem næsta forseta Íslands?

Sjötta forsetakönnunin: Hvern vilt þú sjá sem næsta forseta Íslands?
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hlaupbangsabaróninn kominn á skilorð – Hingað til verið þekktur sem einn helsti bitcoin-sérfræðingur landsins

Hlaupbangsabaróninn kominn á skilorð – Hingað til verið þekktur sem einn helsti bitcoin-sérfræðingur landsins