Hollenskur karlmaður, Richard Dweight Mayam, hefur verið dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir fíkniefnalagabrot. Var hann annars vegar sakfelldur fyrir að hafa sjálfur smyglað kókaíni til landsins og hins vegar fyrir að hafa fengið annan aðila, franskan karlmann, til að smygla efnum. Í báðum tilvikum var um innvortis smygl að ræða.
Richard kom til landsins með flugi frá Amsterdam þann 28. september á síðasta ári og var hann þá tekinn til tollskoðunar í Leifsstöð. Í kjölfarið kom í ljós að hann var með 9,51 grömm af kókaíni innvortis. Við yfirheyrslu hjá lögreglu kvaðst hann hafa komið með efnið til eigin nota við skemmtanahald.
Átta dögum síðar kom franski karlmaðurinn til landsins með flugi frá Amsterdam, og var Richard með honum í för. Franski karlmaðurinn var tekinn til tollskoðunar og við röntgenskoðun kom í ljós að hann var með rúmlega 160 grömm af kókaíni innvortis. Við skoðun á flugmiða hans kom í ljós að flugmiðar þeirra hans og Richards voru á sama bókunarnúmeri.
Samkvæmt gögnum málsins voru tvímenningarnir bókaðir saman í flugið og greiddi Richard flugmiða beggja með sömu greiðslukortsfærslu, samtals 307,98 evrur.
Við skýrslutöku hjá lögreglu sagði maðurinn að hann og Richard hefðu ekki þekkst fyrr en Richard kom að honum úti á götu í bænum Roubaix og bauð honum fé fyrir að flytja fíkniefni. Maðurinn sagðist hafa samþykkt það en hann sagðist hafa verið „illa áttaður“ á þessum tíma og reykt hass daglega. Fóru þeir með leigubil til Amsterdam þar sem Richard lét hann fá poka með hylkum til að gleypa. Fóru þeir síðan á flugstöðina en Richard keypti flugmiða fyrir þá báða til Íalands.
Tollvörður sem bar vitni fyrir dómi sagði mann hafa verið „algerlega mállaus á enska tungu“ og þar hefði hann „enga björg“ sér getað veitt.
Richard var sömuleiðis tekinn til tollskoðunar í Leifsstöð þennan sama dag, 6.október 2017. Við skýrslutöku sagðist hann fyrst vera kominn til að heimsækja vin sinn og væri þetta fyrsta ferð sín hingað til lands. Þegar hann var spurður út í franska karlmanninn vildi hann ekkert kannast við nafnið og hvað þá kannast við að hafa greitt fyrir hann flugmiðann. Þegar honum var sagt að tollvörðum væri kunnugt um sameiginlega flugmiðabókun breytti hann framburði sínum og sagðist fyrst hafa hitt manninn á flugvellinum í Amsterdam og greitt fyrir hann farmiðann af því að maðurinn gat ekki greitt með greiðslukortinu sínu.
Fyrir dómi, þegar Richard var spurður um fyrri ferð sína til Íslands, 28. september 2017 sagðist hann hafa gist á gistiheimili í miðbænum, farið á skemmtistaði og hitt fjölda fólks. Þetta hefði verið hans fyrsta Íslandsferð. Hann hefði verið með kókaínið með sér til eigin nota við skemmtanahalds. Hann hefði ekki verið ánægður með að lögreglan hefði eyðilagt fyrir sér ferðina og því ákveðið að koma aftur. Hefði það verið ástæða síðari ferðarinnar.
Við skoðun á síma franska karlmannsins fannst ljósmynd af nafnspjaldi sem tekin var á símann þann 5. október. Ljósmyndin sýndi nafnspjald verjanda Richards. Maðurinn sagði Richard hafa sagt að ef hann lenti hann í vandræðum ætti hann að leita til lögmannsins. Richard neitaði hins vegar að hafa gefið honum nafnspjaldið.
Franski karlmaðurinn var í kjölfarið ákærður fyrir að hafa staðið að innflutningi á samtals 161,62 g af kókaíni. Fyrir dómi játaði hann sök og var dæmdur til fjögurra mánaða fangelsisvistar. Við ákvörðun refsingar var samkvæmt dómnum horft til játningar hans og lagt til grundvallar að hann hefði einungis komið að flutningi efnanna hingað til lands og hann hefði hvorki komið að skipulagningu né fjármögnun innflutningsins. Þá mætti sérstaklega líta til þess að hann hefði sýnt samvinnu við rannsókn málsins og vísað lögreglu strax á meintan samverkamann sinn.
Fyrir dómi sagðist Richard hafa ætlað til Íslands þann 6. október. Sagðist hann hafa ætlað að dvelja þar yfir helgi og gista á gistiheimili í miðbænum. Á Schiphol flugvelli, á leið til innritunar, hefði hann hitt mann sem hann þá hefði ekki þekk. Þessi maður hefði beðið sig um að kaupa fyrir sig farmiða til Íslands, þar sem sjálfur hefði hann ekki greiðslukort. Richard sagðist hafa keypt fyrir hann miðann og þeir flogið til Íslands.
Sagðist hann ekki hafa haft hugmynd um að maðurinn hefði haft fíkniefni innvortis. Þá sagðist hann hvorki hafa látið hann fá nafnspjald né upplýsingar um gististaði í landinu.
Þegar borið var undir hann að gögn málsins sýndu að hann og franski karlmaðurinn hefðu verið skráðir á sama bókunarnúmeri ítrekaði hann að að kaupa yrði einn flugmiða í senn og sagðist ekki keypt miðana á sama tíma.
Þá gat hann ekki útskýrt hvers vegna maðurinn var með á sér nafnspjald verjanda hans. Þegar hann var spurður hvers vegna hann hefði ekki leyft lögreglu að skoða síma sinn svaraði hannþví til að á símanum væru myndir af konu sinni nakinni og vildi hann ekki að þær kæmust í annarra hendur.
Hann játaði sök samkvæmt fyrri ákærulið. Hvað seinni ákæruliðinn varðaði var stuðst við dóm héraðsdóms frá 6.október þar sem ekkert kom fram sem bendti til þess að framangreind niðurstaða dómsins væri röng. Samkvæmt sakavottorði frá Hollandi hefur hann allnokkurn sakaferil og hefur hann þrisvar hlotið fangelsisdóm í heimalandi sínu vegna fíkniefnalagabrota. Mat héraðsdómur Reykjaness það svo að hæfileg refsing væri óskilorðsbundið átta mánaða fangelsi.