Svo gæti farið að heimsþekkt lúxusvörumerki á borð við Gucci og Louis Vuitton séu á leið til landsins. Fasteignafélagið Reginn á í viðræðum við þessi fyrirtæki og fleiri til um opnun smáverslana á Hafnartorgi í miðborg Reykjavíkur.
Frá þessu er greint á vef Viðskiptablaðsins en fjallað er um málið í blaðinu sem kemur út á morgun.
Auk Gucci og Louis Vuitton eru vörumerkin sem Reginn hefur áhuga á að fá til landsins Prada, Burberry, Marc Jacobs, Michael Kors, Bottega Veneta og Isabel Marant. Um er að ræða rándýr vörumerki sem hingað til hafa ekki staðið íslenskum neytendum til boða nema að mjög takmörkuðu leyti.
Að sögn Viðskiptablaðsins stefnir Reginn að því að ganga frá leigusamningum við erlenda aðila í næstu viku. Fara viðræðurnar fram í gegnum erlend ráðgjafafyrirtæki.