Flestir telji það ánægjulega athöfn fyrir hunda að naga bein. Það getur hins vegar reynst vafasamt að gefa þeim slíkt. Meðfylgjandi myndir voru teknar á íslenskri dýralækningastofu á dögunum en þar má sjá nagbein sem festist í maga hvolps þannig að mikil vandræði hlutust af.
Á facebooksíðu dýralæknastofunnar Dýralæknirinn Mosfellsbæ er vakin athygli á þessu og hundaeigendur hvattir til að gæta að því sem fer ofan í maga dýranna.
„Að gefa hundum bein getur verið varasamt. Ég veit ekki hvernig þessi litli 6 mánaða hvolpur fór að því að kyngja svona stóru nauta rifi. Það gerðist nú samt og þurftum við að opna hann og fara inn í maga.“
Jafnframt kemur fram að samkvæmt eigandanum sé litli hvuttinn allur að hressast og mun hann sem betur fer ekki hljóta skaða af atvikinu.
„Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég þarf að opna hund sem hefur étið bein.“
Almennt er í lagi að gefa hundum ósoðin mergbein sem og tilbúin nagbein úr gæludýraverslunum. Elduð bein geta hins vegar flísast í sundur og þá stungist í gegnum inniyfli hundsins með ófyrirséðum afleiðingum.
Á heimasíðu MAST kemur fram að varast skuli að gefa hundum bein, en bæði geta þau staðið í þeim eða stíflað meltingarveg. Sérlega varasöm eru bein sem verða mjög oddhvöss eins og lamba og fuglabein.
„Ef hundirinn þinn hefur náð í kalkúnabeinin úr ruslinu þá getur verið gott ráð að gefa honum smá hundamat í dós, kjöthakk eða annað vel íblönduðum með niðursoðnum spergil (aspars), því þræðirnir í spergil pakkast oft vel í kringum oddhvassa hluti og getur skilað hlutnum út án þess að valda skaða.“