fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Íslendingur handtekinn í Buenos Aires fyrir meint afbrot nafna síns

Einu tveir sem heita þessu nafni og voru báðir í tygjum við argentínskar konur – „Ótrúleg tilviljun“

Björn Þorfinnsson
Mánudaginn 18. desember 2017 09:33

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á dögunum var íslenskur karlmaður á fimmtugsaldri handtekinn við komu sína til Buenos Aires, höfuðborgar Argentínu. Maðurinn var í fylgd með þarlendri eiginkonu sinni og kom handtakan honum gjörsamlega í opna skjöldu. Síðar kom í ljós að maðurinn var handtekinn vegna meintra misgjörða íslensks nafna síns gegn argentínskri kærustu sinni. Þeir eru einu mennirnir sem bera þetta tiltekna nafn á Íslandi. „Þetta var ótrúleg tilviljun,“ segir maðurinn, sem lýsir þrautagöngu sinni í viðtali við DV. Rétt er að geta þess að viðmælandinn kemur ekki fram undir réttu nafni enda eru þeir aðeins tveir, nafnarnir. „Þetta eru ekki algeng nöfn, það er ekki eins og ég heiti Jón Jónsson,“ segir maðurinn, sem við skulum kalla Áka.

Kynntust á netinu

Áki og argentínsk eiginkona hans ákváðu að verja sumarfríi sínu í að heimsækja fjölskyldu hennar í Buenos Aires og ferðast aðeins um Suður-Ameríku. Alls átti ferðalagið að taka rúman mánuð. Þetta var í annað skiptið sem Áki hafði heimsótt argentínsku höfuðborgina. „Við kynntumst í gegnum netið og spjölluðum mikið saman. Síðan ákvað ég að heimsækja hana til Buenos Aires fyrir rúmu ári síðan og dvaldi þar í sex daga. Við héldum áfram góðu sambandi eftir að ég kom heim og hún endurgalt heimsóknina stuttu síðar. Í framhaldinu giftum við okkur og búum núna saman á Íslandi,“ segir Áki.

Öryggisvörður beið við landganginn

Ferðalagið frá Íslandi til Argentínu er bæði langt og strangt. „Við vorum búin að ferðast í rúmlega sólarhring og vorum því afar þreytt þegar flugvélin loks lenti,“ segir Áki. Hann gekk inn landganginn frá flugvélinni en kom þá skyndilega auga á öryggisvörð sem mændi á hann með einhverja pappíra í hendinni. „Hann gengur síðan í veg fyrir mig og biður mig um að koma afsíðis með sér,“ segir Áki. Hann var eðlilega mjög undrandi og eiginlega hálfskelkaður. „Ég fór strax að hugsa um hvað í ósköpunum væri í gangi, hvað ég gæti hafa gert af mér. Datt helst í hug að ég hefði gleymt að borga mini-barinn í síðustu ferð til Buenos Aires,“ segir Áki og brosir.

Vildi ekki skrifa undir skjöl sem hann skildi ekki

Öryggisvörðurinn talaði litla sem enga ensku og gat því ekki útskýrt neitt fyrir honum. Áki var síðan færður í eins konar yfirheyrsluherbergi og mátti dúsa þar dágóða stund þar til lögreglumenn mættu á svæðið. „Konan mín fékk ekki að fylgja mér og var gert að yfirgefa svæðið. Hún fór síðan út úr flugstöðinni, þar sem tengdaforeldrar mínir biðu eftir okkur, og tilkynnti þeim grátandi að ég hefði verið handtekinn,“ segir Áki.

Skömmu síðar komu lögreglumenn inn í herbergi til Áka með alls konar pappíra sem þeir vildu ólmir að Áki skrifaði undir. „Enska þeirra var mjög takmörkuð en smám saman komst ég í skilning um að einhver þarlend kona hefði kært mig fyrir eitthvað sem ég vissi ekki hvað var. Ég sá nafnið hennar á blaðinu sem ég átti að kvitta á en skildi ekki mikið meira. Það kom auðvitað ekki til greina að skrifa undir einhver plögg án þess að vita hvað kæmi fram í þeim,“ segir Áki.

Settur í nálgunar- og farbann

Á þessum tímapunkti var hann orðinn smeykur um að enda í argentínsku fangelsi en það eru víst ekki vistlegir staðir. „Maður hefur heyrt hryllingssögur um fangelsi á þessum slóðum og þeir virtust ekkert á leiðinni að sleppa mér. Ég var orðinn mjög hræddur um að þurfa að gista í fangaklefa,“ segir Áki.

Til þess kom ekki en alls þurfti Áki að dúsa í varðhaldi í rúmar sex klukkustundir. „Að lokum var mér gert það ljóst að ef ég myndi ekki skrifa undir skjölin þá yrði ég færður í fangelsi. Ég lét loksins undan þegar í ljós kom að ég væri að samþykkja nálgunarbann gegn þessari tilteknu konu sem ég hafði aldrei hitt sem og farbann úr landinu. Þá átti ég að mæta fyrir dómara eftir helgina,“ segir Áki en hann og eiginkona hans höfðu lent á föstudegi í Buenos Aires. Hann mat valkostina og ákvað að skrifa undir skjölin. Þá var honum sleppt úr haldi.

Fundu nafnann á Facebook

„Ég hafði aldrei áhyggjur af því að ég fengi einhvern dóm. Ég hafði aðallega áhyggjur af því hvort málið myndi dragast á langinn enda hreyfist allt opinbera kerfið í Argentínu á snigilshraða. Ég var líka hræddur um að þetta gæti kostað heilan handlegg,“ segir Áki. Hann og argentínska fjölskyldan hans höfðu helgina til þess að undirbúa málsvörn sína. Eiginkona hans hafði strax uppi á íslenskum nafna Áka á Facebook og þá kom hið sanna strax í ljós. „Þetta er eini nafni minn samkvæmt þjóðskrá. Við sáum á myndum að hann hafði verið mikið í Argentínu og þar með var ljóst hvar hundurinn lá grafinn,“ segir Áki. Hann prentaði út allar mögulegar upplýsingar um manninn og undirbjó sig af kostgæfni fyrir réttarhöldin.

„Tengdafaðir minn hafði samband við lögmann sem hann kannaðist við og sá var boðinn og búinn til að aðstoða mig. Mér leist þó ekki á blikuna þegar hann fór að tala um að sækja um að fresta málinu og að kostnaðurinn yrði 2.000 bandarískir dollarar,“ segir Áki, sem ákvað að þiggja ekki þá þjónustu.
Á mánudegi mætti Áki ásamt eiginkonu sinni fyrir dóm. Þar voru sakarefnin lesin upp og hann fékk síðan tækifæri til að verja sig. „Málið tók örugglega 2–3 klukkustundir og ég lagði fram alls konar gögn máli mínu til stuðnings,“ segir Áki.

Dómarinn skammaðist sín

Að hans sögn var greinilegt hvernig dómari málsins fór nánast að sökkva niður í stólinn enda öllum ljóst hversu fáránlegur málatilbúnaður lögregluyfirvalda var. „Ég fékk loks að fara en var komið í skilning um að konan, sem hafði kært nafna minn, þyrfti að mæta á lögreglustöðina, skoða af mér fangamynd og staðfesta að ég væri ekki sá sem hún hafði kært,“ segir Áki. Það hafi síðan átt sér stað daginn eftir og þá loks fékk Áki tilkynningu um að málið væri úr sögunni. Hann varð þó ekki rólegur alveg strax.

„Ég krafðist þess að fá opinbera yfirlýsingu um að ég væri ekki í farbanni og að ég tengdist þessu máli ekkert. Ég var hræddur við að þegar ég færi úr landi þá væri kannski þetta mál ennþá hangandi yfir mér,“ segir Áki. Að hans sögn eyðilagði þessi uppákoma þó fyrstu viku ferðarinnar til Argentínu en hann og eiginkona hans reyndu sitt besta til þess að gleyma því og njóta lífsins það sem eftir lifði ferðarinnar. Málið var þó ekki alveg búið.

Nafninn laus allra mála

„Eftir að þetta mál kom upp var forvitni okkar vakin á þessum nafna mínum. Eiginkona mín kíkti síðan nokkru síðar inn á Facebook-síðu hans og öskraði upp fyrir sig að hann væri kominn til Argentínu,“ segir Áki. Það reyndist vera raunin, þeir nafnarnir voru báðir staddir í Argentínu á sama tíma en sá sem hafði verið sakaður um saknæmt athæfi hafði komið talsvert síðar. „Það virðist sem svo að málið hafi verið afgreitt sem bull og bara þurrkað út úr réttarkerfinu þarna úti í Argentínu. Nafni minn gat því komið óáreittur inn í landið á meðan ég óð eld og brennistein fyrir hann. Hann getur þakkað mér það,“ segir Áki og hlær.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum
Pétur Einarsson látinn
Fréttir
Í gær

Brim fjárfestir í nýjasta kælibúnaði frá KAPP

Brim fjárfestir í nýjasta kælibúnaði frá KAPP
Fréttir
Í gær

Hefur þú stofnað bankareikning í Danmörku? Þá þarftu kannski að bregðast hratt við svo peningarnir þínir renni ekki í danska ríkiskassann

Hefur þú stofnað bankareikning í Danmörku? Þá þarftu kannski að bregðast hratt við svo peningarnir þínir renni ekki í danska ríkiskassann
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mörg dæmi um að frændhygli, kunningsskapur og pólitísk fyrirgreiðsla ráði för – „Og svo spurði ég um spillingu“

Mörg dæmi um að frændhygli, kunningsskapur og pólitísk fyrirgreiðsla ráði för – „Og svo spurði ég um spillingu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dómur kveðinn upp yfir manni sem réðst á starfsmann Landspítalans

Dómur kveðinn upp yfir manni sem réðst á starfsmann Landspítalans
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir það verða sannkallaða martröð fyrir Rússa ef þeir ráðast inn í stórborgina Kharkiv

Segir það verða sannkallaða martröð fyrir Rússa ef þeir ráðast inn í stórborgina Kharkiv