Fréttir

Við borgum ekki, við borgum ekki!

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 10. nóvember 2017 06:01

Nýlega birtist frétt þess efnis, nánar tiltekið í Viðskiptablaðinu, að íslenskir auðmenn óttist auðlegðarskatt svo mjög að þeir hafi fundað með ráðgjöfum sem ráðleggi þeim að flytja lögheimili sitt og eignir úr landi. Hinn ógurlegi auðlegðarskattur sem hér er um að ræða hefur ekki enn komið til framkvæmda heldur er hugmynd frá Vinstri grænum sem tala um hóflegan auðlegðarskatt upp á 1,5 prósent. Viðskiptablaðið hefur reiknað út að þeir sem eigi 10 milljarða muni þurfa að borga 150 milljónir í auðlegðarskatt, en fyrir þann pening mun vera hægt að fá góða íbúð í London. Er enn ein lúxusíbúðin í útlöndum virkilega það sem auðmenn Íslands þurfa á að halda?

Það er svosem ekki hægt að álasa fólki fyrir að þykja vænt um peningana sína en sá einstaklingur sem á 10 milljarða ætti þó ekki að hrína eins og stunginn grís þótt hann þurfi að borga aukaskatt af þeirri upphæð. Það mun ekki stefna fjárhagslegu öryggi viðkomandi í voða. Auk þess er það siðferðilega rétt að þeir sem lifa við þau forréttindi að eiga milljarða láti hluta af auði sínum renna til samfélagsins, hvort sem það er í formi hærri skatta eða til mannúðarmála. Þetta er hins vegar ekki hið almenna sjónarmið meðal auðmanna, því stöðugt berast fréttir af því hvernig þeir hafa komið fjármunum sínum í skjól til að komast undan skattgreiðslum. Ósköp er það nú aumt hlutskipti í lífinu að vera fangi auðs síns og leggja ógurlegt kapp á að koma honum í skjól.

Nú er ekkert sérstakt sem bendir til að hugmynd Vinstri grænna um auðlegðarskatt verði að veruleika. Viðbrögðin við hugmyndinni eru hins vegar afar eftirtektarverð og lýsandi fyrir viðhorf sem er ekki ástæða til að bera lof á. Svo virðist sem hópi fólks, sem býr við einstök forréttindi, þyki svo vænt um peningana sína að það íhugi í fullri alvöru að flytja lögheimili sitt og eignir úr landi. Það er hreinlega skelfingu lostið við tilhugsunina um að leggja sitt af mörkum til að byggja upp íslenskt samfélag. „Við borgum ekki, við borgum ekki,“ emjar það og finnst stórlega gengið á rétt sinn. Ekki ber þetta viðhorf vott um sérlega þroskaða siðferðiskennd.

Við skulum vona að meðal okkar séu auðmenn sem líti á það sem gæfu að greiða skatta hér á landi og geri það með glöðu geði. Íslenskt samfélag þarf á slíku fólki að halda. Það á að vera sjálfgefið að þeir einstaklingar sem lifa við munað leggi sitt af mörkum til samfélagsins. Ef þeim finnst það ekki eðlilegt þá er eitthvað mikið og alvarlegt að í hugarheimi þeirra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Kötturinn sem Davíð Oddsson dekraði fallinn frá

Kötturinn sem Davíð Oddsson dekraði fallinn frá
Fréttir
Í gær

Tryggvi fastur á Landspítalanum í átta mánuði – „Börnin eru bara að molna niður“

Tryggvi fastur á Landspítalanum í átta mánuði – „Börnin eru bara að molna niður“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Líkamsárás í Breiðholti – Ökumenn í vímu

Líkamsárás í Breiðholti – Ökumenn í vímu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Slökkvistarf stendur enn yfir á Hvaleyrarbraut – Ekki vitað um eldsupptök

Slökkvistarf stendur enn yfir á Hvaleyrarbraut – Ekki vitað um eldsupptök
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Óþægilegt fyrir alla

Óþægilegt fyrir alla
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einn af hverjum þremur Íslendingum les ekki bækur á íslensku

Einn af hverjum þremur Íslendingum les ekki bækur á íslensku
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Arnrún lenti í óhugnanlegu atviki: „Hryllir við því hvað hefði getað gerst“ – Hvetur fólk til að fara varlega

Arnrún lenti í óhugnanlegu atviki: „Hryllir við því hvað hefði getað gerst“ – Hvetur fólk til að fara varlega
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Harpa – Á meðan ég eldaði kvöldmatinn sprautaði hann sig inni á klósetti og var næstum dáinn

Harpa – Á meðan ég eldaði kvöldmatinn sprautaði hann sig inni á klósetti og var næstum dáinn