fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Keyptu helminginn af Símabréfunum

Fjárfestarnir Sigurbjörn, Árni og Hallbjörn greiddu Arion banka 585 milljónir fyrir 2,4% í Símanum

Ritstjórn DV
Föstudaginn 28. október 2016 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Viðskiptafélagarnir Sigurbjörn Þorkelsson, Árni Hauksson og Hallbjörn Karlsson eiga 48 prósent í eignarhaldsfélaginu sem keypti hlutabréf í Símanum í umdeildri sölu Arion banka í ágúst í fyrra. Þeir eignuðust þá 2,4 prósenta hlut í fjarskiptafélaginu og greiddu 585 milljónir fyrir bréfin sem eru nú metin á 692 milljónir. Félag í helmingseigu Orra Haukssonar, forstjóra Símans, fékk lánaðar 200 milljónir króna fyrir kaupum á 0,83 prósenta hlut í fyrirtækinu. Fjárfestahópur sem fjórmenningarnir tilheyra keypti alls fimm prósent í Símanum á 1.215 milljónir eða rúmlega 115 milljónum minna en haldið hefur verið fram.

Fékk lánað

Hópurinn keypti bréfin af Arion banka í gegnum eignarhaldsfélagið L1088 ehf. Samkvæmt nýbirtum ársreikningi þess áttu Sigurbjörn, Árni og Hallbjörn alls 48,15 prósenta hlut í því í árslok 2015 en eignin er skráð á félag þeirra Æðarnes ehf. Orri Hauksson, sem leiddi fjárfestahópinn saman fyrri hluta 2015, og Gunnar Fjalar Helgason, yfirmaður stefnumótunar og stjórnunar hjá Símanum, áttu 16,5 prósent í gegnum Frost Capital ehf. Gunnar hefur ekki áður verið nefndur í tengslum við kaupin en aðrir íslenskir hluthafar L1088 voru nafngreindir þegar þau voru í hámæli fyrir ári. Félag hans og Orra tók samkvæmt ársreikningi Frost Capital lán í fyrra upp á 200 milljónir króna, eða fyrir öllum hlutnum sem þeir keyptu í Símanum, en í árslok 2015 nam hlutafé þess 120 þúsund krónum.

Félagið Íshóll ehf. er þriðji stærsti eigandi L1088 með 15,63 prósenta hlut. Það er í eigu Stefáns Ákasonar, fyrrverandi forstöðumanns skuldabréfamiðlunar Kaupþings. Bertrand Kan, hollenskur fjárfestir og stjórnarmaður í Símanum, átti 6,38%. Önnur bréf félagsins voru í eigu innlendra og erlendra fjárfesta sem tóku þátt í kaupunum.

Hækkað um 20%

LH1088 keypti alls 482.500.000 hluti í Símanum á genginu 2,518. Kaupverðið var því 1.215 milljónir króna en ekki rúmlega 1.330 milljónir líkt og fullyrt hefur verið í fjölmiðlum. Þetta staðfestir Sigurbjörn Þorkelsson, stjórnarformaður Fossa markaða, í samtali við DV. Skýringuna á hærri upphæðinni má að öllum líkindum rekja til þess að stjórnendur hjá Símanum keyptu til viðbótar 0,5 prósenta hlut í fjarskiptafélaginu af Arion banka með beinum hætti. Þegar sá eignarhlutur er lagður saman við bréf L1088 í Símanum nemur heildarkaupverðið 1.336 milljónum.

Eigendur L1088 mega ekki selja bréfin fyrr en í janúar á næsta ári. Gengi hlutabréfa fjarskiptafélagsins var við lokun markaða í gær, fimmtudag, 18 prósentum hærra en verðið sem Arion banki fór fram á. Bréf Símans voru þá metin á 2,98 krónur á hlut og fimm prósenta eignarhlutur L1088 því 1.437 milljóna króna virði. Í árslok 2015 var hann metinn á 1.746 milljónir í bókum félagsins en gengið var þá 3,62 krónur á hlut.

Meðlimir hópsins keyptu bréfin tæpum tveimur mánuðum áður en almennt hlutafjárútboð á eign Aron banka í Símanum fór fram. Bankinn seldi þá 21 prósent í félaginu og var útboðsgengi Símans 3,33 krónur á hlut. Salan til L1088 vakti mikla athygli en einnig kaup valinna vildarviðskiptavina bankans á öðrum fimm prósentum í fjarskiptafyrirtækinu. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði viðskiptin hafa rýrt traust almennings á fjármálamarkaði. Arion banki viðurkenndi að salan til vildarvinanna hefði verið misráðin en taldi viðskiptin við L1088 hafa verið réttmæt. Álitsgjafar Markaðarins, fylgirits Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál, völdu söluna á eignarhlut Arion í Símanum verstu viðskipti ársins 2015.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Pétur Einarsson látinn

Pétur Einarsson látinn
Fréttir
Í gær

Hefur þú stofnað bankareikning í Danmörku? Þá þarftu kannski að bregðast hratt við svo peningarnir þínir renni ekki í danska ríkiskassann

Hefur þú stofnað bankareikning í Danmörku? Þá þarftu kannski að bregðast hratt við svo peningarnir þínir renni ekki í danska ríkiskassann
Fréttir
Í gær

Facebook hafnaði kosningaauglýsingu Guðmundar Felix á undarlegum forsendum

Facebook hafnaði kosningaauglýsingu Guðmundar Felix á undarlegum forsendum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí