fbpx
Laugardagur 04.maí 2024
Fréttir

Mygla í félagsleiguíbúðum: „Undirbúum okkur fyrir lögsóknir“

Framkvæmdastjóri Félagsbústaða segir að kvörtunum vegna meintrar myglu hafi fjölgað að undanförnu – Telja að í einhverjum tilfellum sé myglu beitt til að fiska eftir „tilhæfulausum bótum“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 17. september 2015 15:25

Mynd úr safni. Kvörtunum vegna meintri myglu í félagsíbúðum hefur fjölgað á síðustu misserum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kvartað hefur verið undan meintri myglu og myglusveppum í félagsleiguíbúðum Félagsbústaða. Þeim kvörtunum hefur farið fjölgandi á síðustu misserum og gerir Auðunn Freyr Ingvarsson, framkvæmdastjóri Félagsbústaða, ráð fyrir að mál munu fara fyrir dómstóla á næstunni.

Ingi B. Poulsen Umboðsmaður borgarbúa.

„Við erum að undirbúa okkur fyrir lögsóknir á komandi tímum. Við vitum ekki upp á okkur sök í þeim málum og komum til með að verja okkur,“ segir Auðunn Freyr í samtali við DV.

Fundað síðasta mánudag

Á mánudaginn átti Auðunn Freyr fund með Inga B. Poulsen, umboðsmanni borgarbúa. Þar var meðal annars rætt hvernig ætti að taka á auknum kvörtunum vegna myglu í íbúðum Félagsbústaða. Var þar meðal annars rætt um að auka þyrfti fræðslu um myglu og hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að hún myndist í íbúðum.

Ingi B. segir í samtali við DV að hann hafi fengið nokkrar ábendingar um að mygla sé í félagsleiguíbúðum frá Félagsbústöðum.

Engin viðmið í lögum um hvenær mygla getur valdið heilsufarsvanda

„Já, það hafa komið þannig mál inn og hafa gert það af og til. Það er stígandi í þessum málaflokki. Við tökum þessi mál mjög alvarlega og reynum að taka á þeim sem fyrst, enda upplifir fólk mikla heilsufarsógn,“ segir Ingi B. við DV.

Umboðsmaður borgarbúa er óháður eftirlitsaðili og segir Ingi B. að leitað sé til umboðsmanns þegar leigutakar eru ósáttir við viðbrögð og málsmeðferð forsvarsmanna Félagsbústaða. Hann segir þó málin flókin, meðal annars vegna núverandi laga og reglugerða.

„Ég tel að stóra vandamálið sé að fólk er ekki nægilega meðvitað um réttindi sín í svona málum. Annað sem flækir málin er að orsök myglunnar er ekki alltaf á hreinu og það þarf ekki að vera að leigusalinn beri nokkra ábyrgð. Mygla gæti hafa komið vegna umgengni,“ segir Ingi B. og bætir við:

„Þá eru engin viðmið í lögum um hvenær mygla getur valdið heilsufarsvanda.“

Mismunandi aðilar gefa mismunandi niðurstöður

Til að flækja málin enn fremur eru fleiri en einn aðili sem fólk getur fengið til að skoða íbúðir vegna myglu.

„Annars vegar er það heilbrigðiseftirlitið, sem framkvæmir svokallaða sjónskoðun, og annars vegar einkaaðilar sem taka sýni. Þau sýni eru svo send til Náttúrufræðistofnunar, sem er ríkisstofnun, til greiningar,“ segir Ingi B. en aðeins Heilbrigðiseftirlitið getur úrskurðað íbúð óíbúðarhæfa vegna myglu.

Ingi B. segir að vegna mismunandi aðferða hafi komið upp mál þar sem niðurstöðum þessara aðila ber ekki saman.

„Ég tel mjög mikilvægt að þessir aðilar komi sér saman um hvaða aðferðarfræði skuli beitt við mat hvort að mygla sé til staðar og ef hún sé þá heilsufarsspillandi.“

Ekki alltaf ljóst hvers vegna mygla myndast

Auðunn Freyr tekur undir með umboðsmanni borgarbúa, málum hafi fjölgað á síðustu mánuðum og að þau séu flókin.

„Þegar fólk telur að myglu sé að finna í íbúðum okkar tökum við á því í samræmi við húsaleigulög. En mygla getur haft mismunandi áhrif á heilsu einstaklinga. Að auki er ekki alltaf ljóst hvers vegna myglan myndaðist.“

Auðunn Freyr segir að tveir mögulegir orsakavaldar séu yfirleitt skoðaðir. Annars vegar að leki hafi komið upp vegna galla í íbúðinni eða ekki sé nógu vel gengið um íbúðina. Auðunn segir að hver einasta íbúð sé tekin í gegn áður en nýr leigjandi tekur við. Það sé gert til að koma í veg fyrir ágreining vegna ástand íbúðarinnar.

„Ef við sjáum myglu sem kemur vegna leka þá tökum við ábyrgð á því og bregðumst skjótt við. Þá höfum við frumkvæðið að því að finna nýja íbúð. Ef við finnum ekki myglu vegna leka, þá eru allar líkur til að myglan eigi sér aðrar orsakir sem félagið ber ekki ábyrgð á. Þá getur verið að ekki sé loftað nógu vel og raki myndast eða að fólk hreinlega þrífur ekki nógu vel,“ segir Auðunn Freyr og bætir við:

„Að auki getum við ekki borið ábyrgð nema að lekinn og/eða mygla uppgötvist og sé tilkynnt um leið og fólk verður vart við hann.“

Telja að í einhverjum tilfellum sé myglu beitt til að fiska eftir „ tilhæfulausum bótum“

Í þeim málum sem Félagsbústaðir telja sig ekki bera ábyrgð á myndun myglunnar er fátt sem fólk getur gert annað en að sækja um milliflutning og bíða eða flytja út og leita að nýrri íbúð sem er ekki á vegum Félagsbústaða.

Bæði Auðunn Freyr og Ingi B. telja að aukningu kvartana megi meðal annars rekja til aukinnar umfjöllunar um myglu og þeirri hættu sem margir telji að af henni stafi.

„Ef læknar átta sig ekki á því hvað hrjáir fólk þá kunna þeir að draga þá ályktun að raki eða mygla sé skaðvaldurinn. Við höfum séð vottorð frá lækni þar sem fullyrt er að leigutaki þurfi að flytja í annað húsnæði af heilsufarsástæðum, án þess að læknirinn hafi kynnt sér ástand íbúðar eða umgengnisvenjur viðkomandi leigutaka.

Vandinn er að oft er raki í íbúðum kominn til vegna umgengni íbúanna sjálfra og þeir engu betur settir í annarri íbúð. Enn fremur teljum við að í einhverjum tilfellum sé myglu beitt sem „tylliástæðu“ til að auka líkur á milliflutningi í aðra íbúð á vegum félagsins, niðurfellingu á leigu eða í versta falli til að fiska eftir tilhæfulausum bótum,“ segir Auðunn Freyr.

„Búinn að fá nokkrar hringingar frá lögfræðingum“

Auðunn segist vita af málum þar sem leiguliðar kunna að fara með mál sitt fyrir dómstóla.

„Ég er búinn að fá nokkrar hringingar frá lögfræðingum. Lögfræðingar auglýsa mikið aðstoð í bótamálum og sækja í þau. Við erum að undirbúa okkur fyrir lögsóknir á komandi tímum. Við vitum ekki upp á okkur sök í neinu máli og komum til með að verja okkur,“ segir Auðunn.

Auðunn segir að ástand íbúða Félagsbústaða sé almennt gott, en þær eru ríflega 2.000 talsins, og að ástand þeirra sé almennt betri en gengur og gerist á almennum leigumarkaði. Lítið hafi verið kvartað vegna myglu á síðustu árum en þeim málum hefur farið fjölgandi allra síðustu misseri.

„Tilfelli þar sem við höfum þurft að bregðast við og bera ábyrgð á síðustu tveimur árum má telja á fingrum hálfrar annarrar handar, en kvörtunum þar sem fólk telur að um myglu sé að ræða hefur fjölgað að undanförnu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Karl Arnar hristir hausinn: „Snúið fyr­ir einka­fyr­ir­tæki að standa í sam­keppni við djúpa vasa rík­is­ins“

Karl Arnar hristir hausinn: „Snúið fyr­ir einka­fyr­ir­tæki að standa í sam­keppni við djúpa vasa rík­is­ins“
Fréttir
Í gær

Kjartan vill að stakir frídagar verði færðir að helgum: Slíta í sundur vinnuvikuna og valda margvíslegu ónæði

Kjartan vill að stakir frídagar verði færðir að helgum: Slíta í sundur vinnuvikuna og valda margvíslegu ónæði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harry Potter-stjarnan opnar sig um vinslitin við JK Rowling

Harry Potter-stjarnan opnar sig um vinslitin við JK Rowling
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gullúr sem fannst á líki eins af farþegum Titanic seldist á rúmar 200 milljónir króna

Gullúr sem fannst á líki eins af farþegum Titanic seldist á rúmar 200 milljónir króna