Endur fyrir löngu á klósetti í fjarlægri vetrarbraut

Star Wars-þema á klósettinu laðar ferðamenn á Café Babalú

Logi Geimgengill og aðrar hetjur úr stjörnustríðsmyndunum prýða veggi á baðherberginu á kaffihúsinu Babalú við Skólavörðustíg.
Stjörnustríð á salerninu Logi Geimgengill og aðrar hetjur úr stjörnustríðsmyndunum prýða veggi á baðherberginu á kaffihúsinu Babalú við Skólavörðustíg.

„Þegar fólk spyr hvar klósettið sé svara ég yfirleitt: í fjarlægri vetrarbraut. Fólk er alltaf svolítið hissa þangað til að það sér baðherbergið,“ segir Glenn Barkin, eigandi kaffihússins Babalú við Skólavörðustíg 22, en baðherbergi staðarins er líklega eitt það vinsælasta í borginni meðal ferðamanna – enda hannað í anda Stjörnustríðsmyndanna.

Baðherbergið er innréttað með málmplötum, speglum og ljósum til að minna á geimskip. Myndir af persónum úr upphaflegu Star Wars-myndunum eru límdar á veggina í raunstærð: Logi Geimgengill, Han Solo, Lilja prinsessa og vélmennin R2D2 og C3PO, og tónlist úr myndunum ómar um salernið.

„Ég hef alltaf verið mikið Star Wars-nörd og ákvað að nota það sem þema þegar við gerðum neðri hæð hússins upp árið 2013. Smám saman höfum við bætt við það. Á þessu ári settum við til dæmis upp hátalarann sem spilar stöðugt tónlist úr myndunum,“ segir Glenn.

Hann segir baðherbergið ekki bara vera farið að vekja athygli á samfélagsmiðlum á borð við Instagram og Snapchat heldur hafi verið fjallað um það í þó nokkrum leiðarvísum og leiðsögubókum, oftar en ekki frá Asíu – og stundum koma ferðalangar í pílagrímsferð á klósettið.

„Mér finnst skemmtilegast þegar krakkar fara á baðherbergið án þess að vita af þessu, koma svo út með hökuna í gólfinu,“ segir Glenn sem segist njóta þess að nota kaffihúsið sem tóman striga til að skapa skemmtilegt andrúmsloft.

„Næst á dagskrá er að gera upp klósettið á efri hæðinni. Ég hugsa að ég geri það í Dr. Who-þema, setji upp spegla og ljós og svoleiðis.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.