fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

Katrín Edda lét vaða og starfar hjá þýsku stórveldi: „Það er ekki til neitt sem heitir karla eða konuvinna“

Hvetur konur til að hafa trú – Sjálfsöryggi ekki endilega meðfætt

Auður Ösp
Þriðjudaginn 26. júlí 2016 22:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég finn fyrir að ég þarf meira að hafa fyrir því að vera ákveðin til þess að vera tekin alvarlega. Hugsunin hér og víðar í Evrópu er mikið „Æj, þetta er svona og verður alltaf svona“ á meðan íslenskar konur eru með bein í nefinu og láta ekki yfir sig vaða,“ segir Katrín Edda Þorsteinsdóttir sem búsett er í Stuttgart í Þýskalandi þar sem hún starfar sem verkfræðingur hjá Robert Bosch GmbH, einu stærsta fyrirtæki heims í framleiðslu á bílahlutum, tölvum og hugbúnaði fyrir bílaverksmiðjur. Eftir mörg ár af niðurrifshugsunum tók hún meðvitaða ákvörðun um að trúa á sjálfa sig og stökkva út í djúpu laugina og í kjölfarið gerðust ótrúlegir hlutir. Hún hvetur aðra til að gera slíkt hið sama og bendir á að sjálfsöryggi sé ekki endilega meðfætt.

„Ég hef hvatt margar stelpur og konur að stíga fram og gera það sem þær vilja. Það er ekkert til sem heitir karlavinna eða konuvinna,“ segir Katrín Edda í samtali við blaðamann DV og tekur undir að alltaf sé þörf á fleiri kvenfyrirmyndum þegar kemur að verkfræði og tæknigreinum. Hún heldur úti vinsælli rás á Snapchat: Katrinedda 1 þar sem hún birtir meðal annars hvetjandi skilaboð til kvenna sem starfa eða hafa áhuga á tækniiðnaði.

Katrín Edda kveðst fagna því hversu langt Íslendingar eru komnir í jafnréttisbaráttunni, miðað við aðrar Evrópuþjóðir, og hvetur hún ungar stelpur og konur til að hafa trúa sér á því sem þær eru að gera. „Ísland er lítið land, áhrifagjarnt og nútímavætt. Þess vegna hefur femínismi loksins tekið á skrið, konur halda ekki aftur að sér, karlar líta á konur sem jafningja og vita sjálfir að íslenskar konur, eins og ég orða það hér í Þýskalandi, eru víkingakonur.“

Reif sig niður á hverjum degi

Katrín Edda birti á dögunum pistil þar sem hún sagði frá því hvernig hún hefur oft á tíðum þurft að kljást við efasemdir um sjálfa sig og eigin getu þar til hún breytti hugarfarinu og ákvað að taka öllum áskorunum fagnandi. Pistillinn má lesa hér fyrir neðan.

„Ég hugsaði um daginn hvað hvert skref og hver ákvörðun sem tekin er í lífinu getur breytt öllu eða leitt hlutina á mismunandi vegu. Og hvernig persónuleiki og hugarfar getur breyst gjörsamlega. Allt þetta litla. Sem varð að stóru. Ég var aldrei mjög sjálfsörugg fannst mér í námi, vinnu, íþróttum, fitness né nokkru öðru. Ég er opin, jú, en ég titra enn ef ég þarf að tala fyrir framan aðra og stóð mig að viljandi niðurrifi alla daga. Sá það sem jákvætt til þess að koma í veg fyrir að vera „hrokafullt egóískt fífl.“ Draumavinnan var bara að sitja við skrifborð, reikna dæmi og vera látin í friði allan daginn.

Ég fór á náttúrufræðibraut því einhver sagði það væri gott því ég væri góð í stærðfræði. Hélt ég gæti ekkert þar. Ég fór í Verzló því Berglind fór þangað og ég var með góðar einkunnir og þar af leiðandi átti að fara í skóla með kröfur. Ég fór í verkfræði því þá „hefði maður marga möguleika eftir námið.“ Hélt aldrei ég gæti klárað. Hafði ekki hugmynd um hvað verkfræðingar gera. Ég kláraði. En fannst ég alltaf heimskari en allir.

Ég byrjaði að vinna í Bónus 13 ára og fljótlega á veitingastöðum meðfram Bónus. Ekki má gleyma Pókerklúbbnum Casa þar sem ég gaf spil allar nætur og fór beint að vinna í Heilsuhúsinu eða Kattholti. Aldrei færri en þrjár vinnur í gegnum allt námið. Ég vildi sjálf vera fjárhagslega sjálfstæð. Mamma var það alltaf og kenndi mér það sama.“

„Svo gerðist eitthvað“

Katrín Edda fór í mastersnám til Þýskalands og kveðst hafa þá fundist hún „heimskari en allir.“:

„En loksins fannst mér þó námið áhugavert og skemmtilegt. Óeðlileg vísindagáfa föður míns kveikti þennan loga að sjálfsögðu í mér á unga aldri, hann kenndi mér að diffra áður en ég lærði margföldun.

Svo gerðist eitthvað.

Það var skylda að gera verknám í náminu mínu og gerði ég það í Bosch í framleiðslu sem kom náminu mínu í orkuverkfræði (um flugvélahreyfla aðallega) þó varla neitt við. Ég valdi bara eitthvað. En guði sé lof að ég gerði það þó.

Alla daga dró ég sjálfa mig niður, fannst ég gera allt rangt. Ég kunni ekki þýsku, vildi ekki tala hana af ótta við að ég talaði vitlaust en enginn vildi tala ensku. Ég neyddist til að babla á þýsku og hægt og hægt kom það. Leiðbeinandinn minn sagði „geturðu breytt um lit á skúffunum?“ og ég eyddi deginum í að vera stressuð um hvort hann vildi það rautt eða gult þó leiðbeinandanum væri nákvæmlega sama, hann vildi bara annan lit og fór að kenna mér að taka bara ákvarðanir, vera örugg! Þarna fór ég að læra að það þýðir ekkert að draga sjálfa sig niður. Mistök eru mannleg, það eru 99% líkur á að það hafi EKKI slæmar afleiðingar. (fyrir utan þegar ég pantaði óvart 300 kassa af ákveðnum snúrum en ekki 300 stykki snúrur sem væri einn kassi en jafnvel það var ekkert til mál, ég veit betur næst.“

Á leið til Indlands

Katrín Edda lýsir því þannig að á næstu sex mánuðum hafi hugur hennar stigbreyst. Í kjölfarið fóru ótrúlegir hlutir að gerast:

„Með þessu hugarfari komst ég í gegnum verknámið og prófin og álagið og svo næstu 6 mánuði: mastersverkefnið með doktorsnema sem gerði ekkert nema draga mig niður og setja út á það sem ég gerði. Með þessu hugarfari gerði ég umsóknina mína fyrir framtíðarstöðu í Bosch, stöðu sem ég hélt gæti passað, eða amk sagði leiðbeinandinn það. Mér fannst ég ekkert kunna en var staðföst í því að ef það er eitthvað sem ég ekki kann, þá læri ég það. Því ég get allt.

Með þessu hugarfari fór ég í viðtalið. Og fékk vinnuna.

Með þessu hugarfari hef ég farið í gegnum seinustu 20 mánuði í vinnunni minni, fengið hrós, laun og góðar umsagnir fyrir frammistöðuna mína og nú í seinustu viku bað yfirmaður minn mig um að verða coordinator fyrir þróun forrits sem við munum vinna með í framtíðinni. Indverjar eru sem stendur að forrita hugbúnaðinn og kóðann en einhver í Þýskalandi þarf að sjá um hvað á að fara þangað inn eða sjá um breytingarnar bara sjálfur. Það verður ég. Og ég kann ekkert á xml kóða. Það þýðir, nýjar kröfur, nýjar hindranir, eitthvað sem ég hataði fyrir örfáum árum en nú er ég yfir mig spennt fyrir!“

ritar Katrín Edda sem í ágúst mun halda í tveggja vikna ferðalag til Indlands á vegum Bosch til þess að sjá og kynnast indversku forritsþróurunum.

„Mig langaði bara að segja að sjálfsöryggi er ekki endilega meðfætt. Hentu þér í djúpu laugina og reyndu svo að synda. Það gefur langbestu niðurstöðuna.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta
Fókus
Í gær

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Jón og Hafdís selja Seltjarnarnesvilluna

Jón og Hafdís selja Seltjarnarnesvilluna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki