Sýna bréf sem voru um borð í flugvélum sem fórust

Ritstjórn DV
Föstudaginn 8. júní 2018 11:00

Sviðin bréf eftir að hafa verið í brennandi flugvélaflaki og velkt umslög eftir að hafa legið í sjó eftir flugslys – þessi átakanlegu og lýsandi vitnisburðir um mannskæða harmleiki í flugsögunni eru á meðal sýningagripa á NORDIA 2018 sýningunni í TM-höllinni í Garðabæ helgina 8.-10. júní nk.

Íslensku flugslysin sem um ræðir eru annars vegar þegar flugbátur fórst vestur við Búðardal vorið 1947, þar sem fjórir fórust, og hins vegar þegar Hrímfaxi fórst í aðflugi að Fornebu-flugvelli í Osló vorið 1963 með þeim afleiðingum að tólf létust. Einnig er á sýningunni umslag sem bjargaðist þegar ein af vélunum í flota Italo Balbo brotlenti í Amsterdam, en frægt var þegar 24 flugvélar undir forystu Balbo, flugmálaráðherra í stjórn fasistaleiðtogans Mússólíni, áttu viðdvöl á Íslandi sumarið 1933.

Reru lífróður út í sökkvandi flugbátinn

Eitt bréfið á sýningunni var póstlagt á Ísafirði 14. mars 1947 og sett ásamt öðrum pósti um borð í flugbát af tegundinni Grumman á suðurleið. Flugvélin hafði viðdvöl í Hvammsfirði við Búðadal síðar sama dag, settist í góðu veðri og lygnum sjó og fimm farþegar, sem ætluðu að taka sér far með flugvélinni til Reykjavíkur, voru fluttir þangað út á bát. Eftir litla stund renndi flugmaðurinn vélinni til flugs og lyftist hún lítið eitt upp frá sjávarfletinum. Í Morgunblaðinu næsta dag segir: „Síðan sáu menn sér til mikillar skelfingar að vélin tók að hallast, hvolfdist yfir á vinstri væng og snerist með þeim afleiðingum að hún lenti á hvolfi í sjónum, maraði þar í kafi. Mennirnir á ferjubátnum sem fylgst höfðu felmtri slegnir með framvindunni reru lífróður út að flugvélinni. Fjórir af þeim átta sem í vélinni voru höfðu komist út af sjálfsdáðum gegnum dyr vélarinnar, þeirra á meðal flugmaðurinn.” Við komu ferjubátsins sem bjargaði fólkinu í land stukku aðrir menn strax út í bátinn og ætluðu að freista þess að ná þeim sem fastir voru í flugvélinni. Þeir voru ekki komnir nema skammt frá landi þegar flugvélarflakið sökk. Þegar upp var staðið fórust fjórir. Flugvélin hafði fyllst af sjó og talið var að farþegarnir sem létust hefðu aldrei náð að losa sig úr sætisbeltunum. Lífgunartilraunir báru engan árangur. Þremur dögum síðar tókst að ná flugvélinni af hafsbotni og líkunum sem í henni voru. Við aðgerðina brotnaði flakið í tvennt. Póstinum var bjargað og sendur til Reykjavíkur. Þar var hann stimplaður við komuna, límdur miði aftan á til að segja að viðkomandi bréf hefði verið um borð í vélinni sem fórst, og síðan var það sent áfram til viðtakanda.

Skall lóðrétt til jarðar

Annað bréfið var um borð í Hrímfaxa, vél Flugfélags Íslands, sem fórst við Osló vorið 1963 með tólf manns innaborðs, sjö farþega og fimm manna áhöfn – þau létust öll. Flugvélin var á leið frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur með viðkomu í Ósló og Bergen. Lítið var eftir af aðflugi hennar þegar starfsmenn flugvallarins sáu eldblossa í aðflugslínu hennar. Hún var í um 700 feta hæð þegar hún skall næstum lóðrétt til jarðar, um fjóra kílómetra frá Fornebu-vellinum. Sjónarvottum bar ekki saman um hvernig vélin steyptist til jarðar, sumir sögðu hana hafa komið mjög bratt niður, en rétt í sömu mund hafi sprenging orðið í henni og eldur gosið upp. Einn sjónarvottur taldi að sprenging hafi orðið í vélinni áður en hún lenti á jörðinni og fullyrti að urgað hafi í hreyflunum þegar flugvélin steyptist til jarðar. Flugvélin splundraðist þegar hún skall í jörðina nema stélið var nokkuð heillegt.

Sex póstpokum bjargað úr flakinu

Flugleiðangur Balbo yfir Atlantshaf sumarið 1933 nefndist Crociera del Decennale og voru viðkomustaðir sveitarinnar samtals átta talsins á leiðinni, frá og með Róm á Ítalíu til New York í Bandaríkjunum. Eftir 1.000 kílómetra flug til Amsterdam, sem var annar viðkomustaður ferðarinnar þann 1. júlí, kollsteyptist sjóflugvél undir stjórn Mario Baldini kapteins með þeim afleiðingum að flugvélvirki að nafni Ugo Quintavalla lést og fjórir til viðbótar meiddust. Flugvélin eyðilagðist að mestu.  Sex póstpokum var bjargað úr flakinu með samtals 135 bréfum og þar af voru 104 færð yfir í aðra flugvél sem flutti þau til Íslands. Bréfið á NORDIA 2018 er eina þekkta bréfið sent frá Trípóli til Reykjavíkur undirritað af Baldini kapteini. Barst umrætt bréf til Reykjavíkur þegar flugsveitin lenti þar að viðstöddum íslenskum ráðamönnum og stórum hóp áhorfenda þann 5. júlí. Öll skip á Reykjavíkurhöfn voru þá fánum skreytt og fánar dregnir að húni víða um bæ til að hylla Ítalanna. Flestir Reykvíkingar tóku þessum útsendurum fasistastjórnarinnar í Róm fagnandi, nema kommúnistar sem reyndu að kenna fólki að hrópa „Niður með fasismann!” á ítölsku. Nokkrum árum síðar birti Halldór Laxness smásöguna Ósigur ítalska loftflotans í Reykjavík 1933, gamansama ádeilu á hernaðaranda og snobb. Þess má geta að með flugsveitinni héðan fóru tæplega 300 sendibréf með kveðjum frá Íslandi, frímerkt á sérstakan máta.

Ritstjórn DV
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 2 klukkutímum

DV tónlist á föstudaginn : Lay Low

DV tónlist á föstudaginn : Lay Low
Eyjan
Fyrir 2 klukkutímum

Einar hugsanlega kærður – Þetta er tölvupósturinn sem gæti komið honum í klandur

Einar hugsanlega kærður – Þetta er tölvupósturinn sem gæti komið honum í klandur
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Barn beindi leisergeisla að umferð í Reykjanesbæ

Barn beindi leisergeisla að umferð í Reykjanesbæ
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Leifur Örn ætlar upp á Pumori til að ná í jarðneskar leifar Kristins og Þorsteins

Leifur Örn ætlar upp á Pumori til að ná í jarðneskar leifar Kristins og Þorsteins
Eyjan
Fyrir 3 klukkutímum

Þingflokksformaður Framsóknar deilir jörð með James Ratcliffe

Þingflokksformaður Framsóknar deilir jörð með James Ratcliffe
433
Fyrir 3 klukkutímum

Nýr þjálfari Liverpool happafengur fyrir enska landsliðið

Nýr þjálfari Liverpool happafengur fyrir enska landsliðið