Fókus

Vilja fá lækningu fyrir Ólöfu Sigríði: Greind með heilaæxli 22 ára og glímir í dag við afleiðingarnar

Hefur gengist undir sjö aðgerðir á tveimur árum – Glímir við skerta hreyfigetu og sjón – „Þetta verður mjög dýrt og erfitt fyrir hana sem og fjölskylduna hennar“

Auður Ösp
Miðvikudaginn 29. nóvember 2017 22:00

„Okkar æðsta von er að hún fái lækningu,“ segir Olga Guðrún Gunnarsdóttir, vinkona Ólafar Sigríðar Kristjánsdóttur. Ólöf hefur glímt við erfið og langvarandi veikindi í kjölfar þess að hún greindist með heilaæxli fyrir tveimur árum, þá 22 ára gömul. Þrátt fyrir sjö aðgerðir og fjölda rannsókna hefur læknum hér heima ekki tekist að lina þjáningar hennar og stendur því til að senda hana á Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi til frekari greiningar. Slík innlögn hefur í för með sér talsverð fjárútlát fyrir Ólöfu og fjölskyldu hennar og hafa aðstandendur því hrundið af stað söfnun svo mögulega verði hægt að ráða bót á meinum hennar.

Olga Guðrún vekur athygli á söfnunni í færslu á facebooksíðu sinni og hvetur fólk til að leggja fjölskyldunni lið á þessum erfiðu tímum.

„Elsku fallega vinkona mín hún Ólöf Sigga er búin að vera mikið veik í 2 ár. Þegar hún fór til augnlæknis þá 22 ára var sjónin hjá henni að versna og kom í ljós æxli sem stíflaði leið mænuvökva til heila. Hún fór í aðgerð og settur í hana ventill sem átti að laga þetta en nú 7 aðgerðum og tveimur árum seinna er hún búin að vera kvalin af höfuðverk á verkjaskalanum 5 – 10+ alla daga. Nú er komið í ljós að litliheilinn er eitthvað skaddaður og hefur það áhrif á hreyfingar, sjón og heilsan fer versnandi.

Móðir Ólafar hefur staðið sem klettur við hlið dóttur sinnar og sinnt henni dag og nótt. Hefur hún ekki getað stundað vinnu og er faðir Ólafar að reyna að halda endum saman og vera líka til staðar í verkjaköstum og aðgerðum.

Nú er komið að því að það á að senda Ólöfu á Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólm í Svíðþjóð. Þar er hún að fara í fleiri rannsóknir og vonandi finna hvað er að og okkar æðsta von er að hún fái lækningu. Svona ferð er mjög kostnaðarsöm og það er erfitt að vera í veikindum og óvissu og þurfa líka að vera með fjárhagsáhyggjur.“

Ólöf Sigríður Kristjánsdóttir.
Ólöf Sigríður Kristjánsdóttir.

Irma Dögg Toftum, frænka Ólafar biðlar jafnframt til fólks um styðja við Ólöfu og fjölskyldu hennar og bendir á að margt smátt geri eitt stórt. Þrátt fyrir að hafa farið í margar aðgerðir á höfði þjáist Ólöf enn af stöðugum höfuðverkjum og þá kom í ljós í síðustu rannsókn að eitthvað hefur komið fyrir litla heilann ,sem að hefur áhrif á hinar ýmsu hreyfingar. Einnig fer sjón og heilsa versnandi .

Ólöf hefur nú dvalið í fimm mánuði samfellt á Landspítalanum í Fossvogi en loksins hefur verið ákveðið að senda hana á Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi til rannsókna.

Ólöf Sigríður hefur gengið undir sjö aðgerðir á undanförnum tveimur árum og hefur þó ekki fengið bót meina sinna.
Miklar þjáningar Ólöf Sigríður hefur gengið undir sjö aðgerðir á undanförnum tveimur árum og hefur þó ekki fengið bót meina sinna.

„Vonast er til að hún verði send út fyrir jól ,en svona ferð er mjög dýr og ekki er vitað hvað mikið ríkið greiðir fyrir hana af læknis, ferða og uppihaldskostnaði en eitt er víst að þetta verður mjög dýrt og erfitt fyrir hana sem og fjölskylduna hennar,“ segir Irma jafnframt.

Þeir sem vilja leggja söfnuninni lið er bent á eftirfarandi reikningsupplýsingar.

Bnr. 0142-05-071589
K. 170293-3639.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Tour of Reykjavík 2018