Fókus

Tara Margrét: „Í kjölfar viðtalsins opnuðust flóðgáttir fitufordóma“

Fordómarnir oft dulbúnir sem áhyggjur af heilsu fólks

Ritstjórn DV skrifar
Laugardaginn 15. apríl 2017 19:00

„Það hefur lengi verið mín skoðun að fitufordómar sem tjáðir eru í fjölmiðlum, á kommentakerfum fjölmiðla, samfélagsmiðlum, bloggum og fleiri stöðum internetsins, séu ekkert annað hatursorðræða,“ skrifar Tara Margrét Vilhjálmsdóttir í pistli sem birtist í Kvennablaðinu í dag.

„Þetta er hinsvegar eitthvað sem ég hef hikað við að impra á, fitufordómar hafa enn svo hátt samfélagslegt samþykki að þessi skoðun mín var alltaf dæmd til að falla í grýttan jarðveg. Eftir frægt viðtal Sindra Sindrasonar við mig um daginn er hinsvegar kominn tími á það,“ skrifar Tara.

Tara segir að í kjölfar viðtalsins hafi „opnast flóðgáttir“ fitufordóma. Fordómarnir hafi beinst gegn henni en þeir hafi áhrif á allt samfélagið. Hún segir að þau skilaboð sem feitir einstaklingar hafi fengið væru að þeir væru latir aumingjar sem ekki væru á mark takandi, þeir væru að kollvarpa heilbrigðiskerfinu og gætu bara „drullast til að hafa smá sjálfsaga og grennast til að vera teknir gildir sem samfélagsþegnar“

„Við eigum að taka við skít því við eigum ekkert betra skilið“

„Ég veit af fólki sem notar næturnar og myrkrið til að fara út að ganga eða skokka. Það er búið að fá nóg af augngotum, hrópum og uppnefnum frá vegfarendum. Við eigum að víra saman á okkur kjálkana, taka lyf sem hjálpa okkur að missa 5 kg að meðaltali en hækka blóðþrýstinginn, við eigum að brjóta okkur kerfisbundið niður því við megum ekki vera sátt við okkur og við eigum að taka við skít því við eigum ekkert betra skilið,“ skrifar Tara og segir að samfélagið nái að réttlæta þessa meðferð því þetta sé gert í nafni heilsu.

„Heilsa er meira en blóðþrýstingur og blóðsykursgildi. Heilsa er heildstætt hugtak yfir líkamlega, andlega og félagslega heilsu og langflest erum við því sammála. Nema þegar um er að ræða feitt fólk,“ skrifar Tara.

Tara vitnar í Semu Erlu Serdar sem hefur ferðast um landið og haldið fyrirlestra um hatursorðræðu. Samkvæmt Semu þarf að vega og meta 5 atriði í orðræðunni til að skera úr um hvort um hatursorðræðu sé að ræða. Atriðin eru í fyrsta lagi innihald og tónn orðræðunnar, í öðru lagi ásetningurinn, í þriðja lagi þolendur orðræðunnar, í fjórða lagi samhengi hennar og í fimmta lagi áhrif orðræðunnar.

Fordómarnir oft settir í búning áhyggna af heilsufari

„Innihald fitufordómanna getur verið mjög misjafnt, allt frá mjög hreinu og beinu (t.d. að kalla feitt fólk aumingja og bera það saman við fólk sem hugsar ekki um börnin sín og lemur annað fólk) yfir í að vera á gráu svæði. Þetta gráa svæði er oft tilkomið vegna þess að fordómarnir eru oft settir í birtingarmynd áhyggna viðkomandi af heilsufari feitra,“ skrifar Tara og segir að þó áhyggjurnar kunni að virðast vel meintar þá séu þær oftast „yfirborðskennt mat á heilsufari feitra sem byggist á þeirri beintengingu milli holdafars og heilsu, sem fjölmiðlum og samfélaginu hefur tekist að skapa.“

„Alveg sama hvernig þessar áhyggjur eru settar fram situr alltaf eftir smánun og niðurlæging“

Grannt fólk getur einnig verið þolendur

Tara segir að um ásetningin gildi það sama og um fyrsta atriðið, oft sé ásetningurinn að meiða er stundum sé hann dulbúin sem áhyggjur. „Hvernig sem þú setur áhyggjurnar fram þá á ég erfitt með að kaupa það að þú berir í raun og veru hagsmuni feitra fyrir brjósti. Af hverju værirðu þá annars að viðra þær á kommentakerfi fjölmiðla, um og við einhverja einstaklinga út í bæ sem þú þekkir ekki neitt? Ég tel að nær undantekningarlaust búi að baki tilraun viðkomandi til að upphefja sjálfa sig á kostnað feitra“

Tara segir þolendur orðræðunnar fyrst og fremst vera feitt fólk. En grannt fólk geti einnig verið þolendur, því þegar samfélagið setur samasem merki á milli heilbrigðis og holdafars þar sem því feitari sem þú ert því óheilbrigðari ertu þá getum við horft fram hjá heilsufarlegum einkennum fólks og valdið þannig verulegum skaða.

Tara segir að það skipti máli í hvaða samhengi hlutirnir eru ræddir. Hægt sé að ræða samhengi offitu og heilsufarskvilla á málefnalegan hátt en bendir á að hún sjái það ekki oft gert og vitnar í RÚV þar sem talað er um fólk í yfirþyngd sem „fituhjassa.“ Hún bendir á að RÚV myndi líklega ekki kalla samkynhneigt fólk kynvillinga eða fatlað fólk krypplinga. Þetta orðalag sýni og sanni ríkjandi fitufordóma.

Tara birtir einnig skjáskot af grein á Vísi þar sem offitufaraldurinn er borin saman við hryðjuverk. „Hvort sem það er gert af hugsunarleysi eður ei þjónar fréttin engum öðrum tilgangi en að vekja upp og efla andúð á feitu fólki. Margoft hefur verið rannsakað hvaða áhrif svona fréttaflutningur hefur á almenning og niðurstaðan er einfaldlega sú að hann eykur samfélagslegt samþykki fitufordóma,“ skrifar Tara

Skuldinni alltaf skellt á holdafarið

Að lokum fjallar Tara um fimmta atriðið, áhrif orðræðunnar. „Hvaða áhrif hefur það á einstakling að eiga ekki tilverurétt til jafns við aðra? Eins og þið getið ímyndað ykkur eru þau mikil og alvarleg. Staðalmyndin um að feitt fólk sé gráðugt, latt, skorti sjálfsaga eru fastmótaðar með okkur frá unga aldri. Þessi viðhorf hafa fundist hjá börnum niður í allt að þriggja ára og eftir því sem eldumst eru þau hömruð í huga okkar,“ skrifar Tara. Hún segir að í kjölfar áðurnefnds viðtals við Sindra hafi henni borist ótal sögur frá fólki sem tjáði sig um mismunun vegna holdafars. Margir höfðu sögur um slæma heilbrigðisþjónustu þar sem það gekk milli lækna sem allir sögðu fólkinu að grennast en skuldinni var alltaf skellt á holdafarið.

„Í öllum tilvikum kom í ljós að um var að ræða allt aðra rót á vandanum og stundum var hún lífshættuleg. Stundum var það orðið of seint.“

„Fitufordómar hafa áhrif á okkur öll, hvar sem við föllum á skala líkamsþyngdarstuðulsins. Það er löngu kominn tími til að við köllum hlutina réttum nöfnum, öðruvísi mun okkur reynast erfiðara að vinna bug á þessum samfélagslega og heilsufarslega bákni. Fitufordómar eru ekkert annað en hatursorðræða,“ skrifar Tara að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af