
33 ára gamall breskur maður í Plymouth á Englandi, Ashley Partingon, hefur verið dæmdur í 30 mánaða fangelsi fyrir fjársvik, auk þess sem hann hefur verið úrskurðaður í nálgunarbann gagnvart afa sínum og ömmu, hjónum um áttrætt.
Réttarhöld yfir manninum í Plymouth fyrir nokkrum dögum leiddu í ljós að hann hefði ógnað afa sínum og ömmu með hnífum og hömrum til að kúga út úr þeim fé. Áður hefði hann gripið til vægari kúgunaraðgerða, til dæmist sagst hafa verið dæmdur til sektargreiðslu og að hann myndi þurfa að fara í fangelsi ef gömlu hjónin greiddu ekki fyrir hann sektina.
Hafði hann út úr hjónunum samtals um 5.000 pund eða hátt í andvirði einnar milljónar íslenskra króna. Hjónin, sem voru fátæk fyrir, höfðu hvorki efni á að kaupa sér mat né hita upp íbúðina sína og urðu að leita til hjálparstofnana. Féð sem hann kúgaði út úr hjónunum fór í að svala eiturlyfjafíkn hans.
Dómari sagði að framkoma mannsins við þessa ættingja sína hefði verið einstaklega ógeðfelld en þetta skelfingarástand varði í þrjú ár eftir að hjónin höfðu tekið þetta barnabarn sitt inn á heimili sitt. Upp frá því tók hann til að að hirða af þeim lífeyrinn og selja verðmæti sem þau áttu á heimilinu.
„Þú tókst hvert penný frá þeim og ollir því að þau urðu að leita til hjálparstofnana eftir mat. Þú ollir þeim ólýsanlegri eymd og skildir þau eftir í skelfilegri fjárhagslegri stöðu.“ sagði dómarinn er hann ávarpaði Ashley Partington.
Sjá nánar um málið á vef Metro.