Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Pete Hegseth, hefur boðað alla helstu leiðtoga hersins til fundar í næstu viku. Þetta eru leiðtogar sem eru staðsettir víða um heiminn. Engin ástæða hefur verið gefin fyrir fundinum sem erlendir miðlar segja fordæmalausan.
Fundarboðið hefur valdið kvíða og heilabrotum. Washington Post ræddi við rúmlega tug aðila sem þekkja til málsins en enginn þeirra sagðist hafa hugmynd um tilefnið og tóku þeir fram að þeir þekktu engin dæmi um sambærilegan fund, en ráðherrann hefur krafist þess að fólk mæti á fundinn frekar en að notast við fjarfundabúnað. Þetta gerir að verkum að mikill fjöldi háttsettra aðila verður samankominn á einum stað sem mun vera áskorun hvað öryggi varðar enda eiga Bandaríkin sér óvini sem gætu séð fundinn sem skotmark.
„Fólk er mjög órólegt. Það hefur ekki hugmynd um hvað þetta þýðir,“ segir einn heimildarmaður.