Árið 1983 átti dóttir leikarans, Shauna Redford, í ástarsambandi við mann að nafni Sid Wells sem var nemandi við University of Colorado. Shauna og Sid voru mjög hamingjusöm og virtist samband þeirra traust.
Þann 1. ágúst þetta ár fannst Sid aftur á móti látinn í íbúð sinni í Boulder eftir að hafa verið skotinn til bana. Grunur beindist fljótlega að meðleigjanda Sid, manni að nafni Thayne Alan Smika, sem neitaði því staðfastlega að hafa verið að verki.
Saksóknarar reyndu að finna sönnunargögn sem tengdu hann við morðið en allt kom fyrir ekki og var ákæra aldrei gefin út.
Á þessum tíma var Robert Redford við tökur á myndinni The Natural og varð morðið til þess að hlé var gert á tökum og ákvað Robert að taka sér tímabundið frí frá leiklistinni til að styðja við bakið á dóttur sinni.
Hafi fyrrnefndur Smika verið grunaður um morðið til að byrja með minnkaði sá grunur ekki örfáum árum síðar. Hann lét sig nefnilega hverfa árið 1986, eða um það leyti sem saksóknaraembættið tilkynnti að ekki yrði gefin út ákæra. Lítið er vitað um ferðir hans síðan þá en kenningar voru uppi um að hann hefði farið suður til Texas og svo til Kaliforníu.
Árið 2010, eftir að rannsókn á málinu hófst aftur, var gefin út handtökuskipun á Smika þar sem rannsóknir á DNA-sýnum sem tekin voru á vettvangi morðsins þóttu benda til sektar hans. Ekkert hefur hins vegar spurst til Smika og eru raunar engar staðfestar opinberar upplýsingar um ferðir hans frá árinu 1986. Tilgátur eru þó uppi um að hann gæti hafa tekið upp nýtt nafn í Bandaríkjunum eða flúið úr landi.
Eftir að Robert Redford lést þann 16. september síðastliðinn, 89 ára að aldri, ákvað FBI að rifja málið upp og ítreka að enn séu 10 þúsund dollarar í boði fyrir þann sem veitir upplýsingar sem leiða til handtöku Smika.
Redford var alla tíð umhugað um að sökudólgurinn næðist og greiddi hann til dæmis úr eigin vasa fyrir öryggisgæslu til handa fjölskyldu Wells skömmu eftir morðið. Þá hafði hann samband við saksóknaraembættið í Boulder árið 2010, eftir að handtökuskipun var gefin út, þar sem hann þakkaði embættinu fyrir að hafa ekki gleymt málinu.
Óvíst er hvað varð til þess að Wells var myrtur en lögregla segir hugsanlegt að deilur vegna peningaskuldar hafi verið kveikjan að morðinu. Fyrir liggur að Wells skuldaði Smika 300 dollara þegar hann var myrtur.